fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Pressan

Pútín hyggur á landvinninga í Afríku – Næsta verkefni er risavaxið

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 3. nóvember 2019 20:00

Vladímír Pútín.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vladimír Pútín hefur í raun tögl og hagldir í Sýrlandi og getur ráðið því sem hann vill ráða þar. Hann hefur um langa hríð stutt stjórn Bashar al-Assad og seilst til áhrifa í þessu stríðshrjáða landi. En nú hyggur Pútín á enn frekari landvinninga og það er enginn smá biti sem hann ætlar sér. Afríka er næsta verkefni Pútín. Hann hefur sýnt fram á það á undanförnum árum að hann er framúrskarandi hugmyndasmiður og snjall stjórnmálamaður þegar kemur að utanríkismálum því áhrif Rússa utan landsins hafa aukist til muna.

Ári eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga í Rússland fór rússneski herinn að láta sjá sig og að sér kveða í Sýrlandi. Nú er næsti leikur Pútín á hinu alþjóðlega skákborði hafinn. Hann stefnir markvisst á ákveðna hluti í Afríku og má kannski segja að hann sé að reyna að endurskapa áhrif Sovétríkjanna sálugu í álfunni á tímum kalda stríðsins. Nýlega stóðu Rússar fyrir ráðstefnu í ólympíuborginni Sotji við Svartahaf þar sem um 3.000 þátttakendur frá Rússlandi og 54 Afríkuríkjum mættu til leiks. Þar á meðal voru um 50 afrískir þjóðarleiðtogar og stjórnmálamenn. Allt var þetta í boði Rússa sem greiddu allan kostnað við fundinn sem snerist um efnahagsmál. Í opnunarræðu sinni sagðist Pútín reikna með að viðskipti Rússa við Afríkuríki gætu fimmfaldast á næstu fjórum til fimm árum.

Markmiðið með fundinum var að skrifa nýjan kafla í þeirri sögu sem oft er sögð um Afríku, að Rússar standi á hliðarlínunni sem áhorfendur að áköfu kapphlaupi Kína, Bandaríkjanna og Evrópu um áhrif í álfunni.

Stórt verkefni

Fyrirætlanir Pútín um að gera Afríku að einu helsta verkefni sínu á utanríkissviðinu fela í sér miklar áskoranir. Þegar hann og aðrir rússneskir leiðtogar stæra sig af því að viðskipti Rússlands við Afríku hafi aukist um 350 prósent á undanförnum áratug sleppa þeir eða gleyma að segja frá því að viðmiðið var ansi lágt því viðskiptin voru sáralítil fyrir áratug. Rússar eiga miklu meiri viðskipti við Evrópu og Asíu en Afríku.

Sovétríkin studdu hreyfingar sem börðust fyrir sjálfstæði Afríkuríkja á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar en Rússum tókst ekki að tryggja sér fasta efnahagslega eða pólitíska stöðu í álfunni eftir hrun Sovétríkjanna. Á síðasta ári námu viðskipti Rússa og Afríkuríkja sunnan Sahara 20 milljörðum dollara samkvæmt tölum frá Rússum. Á sama tíma námu viðskipti Afríku við Bandaríkin 60 milljörðum dollara, 200 milljörðum dollara við Kína og 300 milljörðum við ESB.

En þegar kemur að hernaðarsviðinu skera Rússar sig úr. Á síðustu fimm árum hafa Rússar gert öryggissamninga við 23 Afríkuríki. Við fundarsetninguna í Sotji sýndu Rússar einnig mátt sinn og megin í Suður-Afríku þegar tvær Tupolev Tu-160-kjarnorkusprengjuflugvélar lentu í herstöð í Suður-Afríku en markmiðið með komu þeirra þangað er að auka hernaðarsamstarf ríkjanna. Sænsku öryggismálasamtökin Sipri segja að Rússar séu nú stærstu seljendur vopna til Afríku. Frá 2014 til 2018 fóru 17 prósent af vopnaútflutningi Rússa til Afríku og er Egyptaland þá ekki talið með. Meðal viðskiptavina voru Alsír, Angóla, Nígería, Súdan, Malí, Búrkína Fasó og Miðbaugs-Gínea sem keypti meðal annars orrustuþotur, þyrlur, eldflaugar og flugvélahreyfla. Rússneskir málaliðar taka einnig oft þátt í átökum allt frá Líbíu til Mósambík.

Rússar hafa látið sérstaklega mikið að sér kveða í Mið-Afríkulýðveldinu þar sem hinar rússnesku Wagner-málaliðasveitir hafa verið til staðar. Þeim er stýrt af vini Pútín, Jevgenij Prigozhin. Opinbert markmið með veru rússnesku málaliðanna í landinu er að styðja ríkisstjórn landsins, sem nýtur stuðnings Sameinuðu þjóðanna, í baráttu hennar við ýmsa hópa uppreisnarmanna. En hin óopinbera saga er hins vegar að Mið-Afríkulýðveldið er að selja Rússum réttinn til gull- og demantavinnslu í landinu á útsöluverði í skiptum fyrir rússnesk vopn og herþjálfun. Rússneskir málaliðar birtust einnig í Súdan í misheppnaðri tilraun til að koma í veg fyrir að Omar al-Bashir forseti væri settur af. Times segir að stjórnvöld í Malí, Níger, Búrkína Fasó og Máritaníu hafi einnig beðið Rússa um aðstoð í baráttunni við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið og al-Kaída.

Náttúruauðlindir lokka

Í byrjun október komu 200 þungvopnaðir rússneskir málaliðar með þrjár herþyrlur sér til stuðnings til Mósambík til að leggja stjórnvöldum lið í baráttunni við íslamista sem hafa herjað á landið síðustu tvö ár. Þeir hafa ráðist á þorp og myrt óbreytta borgara og stökkt mörg hundruð manns á flótta. Þetta hefur átt sér stað í Cabo Delgado-héraðinu en þar fundust miklar gaslindir fyrir um áratug.

Þrátt fyrir að Afríka sé smávaxin þegar horft er til efnahagsmála á heimsvísu eru augljósir, efnahagslegir hagsmunir sem laða Rússa að álfunni. Rússneskur iðnaður hefur þörf fyrir ýmis náttúruleg hráefni sem Afríka er auðug af. Rússnesk orkufyrirtæki hafa um langa hríð starfað í Kamerún, Gana og Nígeríu. Afrískur efnahagur er á góðri siglingu og það skapar nýja möguleika fyrir rússnesk fyrirtæki. Á næsta ári hefst bygging á rússnesku kjarnorkuveri í Egyptalandi. Í Simbabve aðstoða Rússar heimamenn við að nýta stærstu platínuvinnslu heims.

Pútín segir þó að áhugi Rússa á Afríku sé meiri en bara á efnahags- og hernaðarsviðinu. Á fyrrnefndum fundi í Sotji sagði hann að Rússar geti boðið Afríkuríkjum efnahagsaðstoð, mannúðaraðstoð og lagt þeim lið í baráttunni við sjúkdóma og eflt menntun. Til að auka áhuga afrískra leiðtoga á samvinnu við Rússa hafa Rússar heitið að fella niður hluta af skuldum ríkjanna. Pútín hefur sagt að nú þegar hafi Rússar fellt niður skuldir upp á 20 milljarða dollara frá tímum Sovétríkjanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

Konur lýstu hegðun hans á Facebook – Nú krefst hann bóta

Konur lýstu hegðun hans á Facebook – Nú krefst hann bóta
Pressan
Fyrir 2 dögum

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin

Stillti sér upp á mynd fyrir eiginmanninn – Andartökum síðar var hún látin
Pressan
Fyrir 3 dögum

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna

9 ára stúlka lést eftir astmakast – Foreldrarnir létu renna í bað í stað þess að hringja á neyðarlínuna
Pressan
Fyrir 4 dögum

Tíu ára drengur játar á sig morð: Var sjö ára þegar hann framdi voðaverkið

Tíu ára drengur játar á sig morð: Var sjö ára þegar hann framdi voðaverkið
Pressan
Fyrir 4 dögum

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hluti af San Andreas misgenginu gæti verið að setja sig í stellingar fyrir jarðskjálfta

Hluti af San Andreas misgenginu gæti verið að setja sig í stellingar fyrir jarðskjálfta
Pressan
Fyrir 4 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða