fbpx
Þriðjudagur 14.júlí 2020
Pressan

Hryllingurinn í Ruinerwold – Töldu dagsljós hættulegt – Höfðu þróað sitt eigið tungumál

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 21. október 2019 05:50

Húsið er vel falið innan um trjágróður. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum dögum birtist úfinn og skeggjaður maður á barnum De Kastelie í litla hollenska bænum Ruinerwold. Bærinn er í austurhluta landsins, skammt frá þýsku landamærunum. Nokkrir gestir voru á barnum og heyrðu manninn, sem er 25 ára, segja að hann hefði ekki farið í klippingu í níu ár. Gestirnir tóku eftir því að maðurinn talaði mjög einfalt mál, næstum barnalegt. Sumir þeirra spurðu manninn hvort hann væri í sértrúarsöfnuði en maðurinn gat ekki svarað spurningunni því hann vissi ekki hvað „sértrúarsöfnuður“ eða „söfnuður“ þýddi. Að öðru leyti var hann mest upptekinn af því að vara gestina við dagsljósi og sagði það hættulegt.

Það var síðdegis á sunnudegi sem maðurinn birtist á barnum, rétt fyrir lokun. Hann pantaði fimm bjóra, drakk þá hratt. Hann sagði nærstöddum að honum og systkinum hans væri haldið föngnum á litlum sveitabæ nærri Ruinerwold. Um 2.800 manns búa í bænum. Daginn eftir hringdi bareigandinn í lögregluna og skýrði frá heimsókn unga mannsins. Fjölmennt lögreglulið fór síðar um daginn og framkvæmdi húsleit á sveitabænum. Þar voru fimm manns á aldrinum 18 til 25 ára auk 58 ára austurrísks karlmanns sem var handtekinn. Unga fólkið var allt í litlu herbergi sem fannst ekki fyrr en eftir mikla leit enda voru dyrnar að því vel faldar. Aðeins var hægt að læsa dyrunum utanfrá.

Fyrir helgi var skýrt frá því að faðir unga fólksins hefði verið handtekinn vegna málsins. Hann er 67 ára. Hann er grunaður um að hafa svipt fólkið frelsi, misnotkun og að hafa stundað peningaþvætti. Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Austurríkismaðurinn er grunaður um sömu afbrot og hefur einnig verið úrskurðaður í gæsluvarðhald segir The Guardian.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er enn margt á huldu um þetta sérkennilega mál en þó eru sumar línur farnar að skýrast.

Fram hefur komið að talið sé að faðir fólksins sé meðlimur í sértrúarsöfnuði.

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt“

Roger de Groot, bæjarstjóri í Ruinerwold, sagði í samtali við Focus Online að unga fólkið hafi búið við hræðilegar aðstæður og að það hafi verið mikið áfall að sjá aðstæðurnar þegar hann kom á býlið.

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.“

Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort unga fólkið er skylt eða hvort um trúarlega tilvísun er að ræða þegar þau segja „systkin“. Talsmaður lögreglunnar sagði að verið sé að rannsaka þetta og eins og stendur hafi lögreglan engar upplýsingar um það nema orð fólksins. Einnig er verið að rannsaka hvort fólkið hafi verið á býlinu af fúsum og frjálsum vilja eða hvort því hafi verið haldið föngnu þar.

Austurríkismaðurinn tók býlið á leigu fyrir níu árum. Skógur vex við þrjár hliðar þess og auk þess er girðing og limgerði svo erfitt er að virða býlið fyrir sér utan frá. Hann hefur neitað að tjá sig við yfirheyrslur og hefur ekki viljað þiggja aðstoð austurríska sendiráðsins í Hollandi.

Eigið tungumál

Eftir níu ár í einangrun hafði unga fólkið þróað sitt eigið tungumál og á lögreglan í miklum erfiðleikum með öll samskipti við fólkið. Bild-Zeitung hefur eftir talskonu lögreglunnar að stór hluti þess sem fólkið segi sé óskiljanlegt með öllu.

Þó hefur komið fram að þau voru í algjörri einangrun frá umheiminum í níu ár og héldu að þau væru eina fólkið sem eftir var á jörðinni og biðu þau dómsdags.

Staðsetning Ruinerwold er sýnd á þessu korti.

Þau lifðu af eigin grænmetisræktun og voru einnig með gæsir og geitur sem sáu þeim fyrir smávegis kjöti. Austurríski netmiðillinn oe24 segir að fólkið sé mjög hrætt við dagsbirtu sem þau telji vera hættulega.

Fólkið er nú í umsjá yfirvalda á leynilegum stað þar sem þau fá nauðsynlega umönnun og aðstoð. Lögreglan segir að fólkinu verði haldið frá samskiptum við umheiminn að sinni.

„Austurríski-Josef“

Austurríkismaðurinn starfaði í skipasmíðastöð í Meppeln, sem er skammt frá Ruinerwold. Hann var vel liðinn af samstarfsfélögum og þótti vandvirkur og góður starfsmaður. Nágrannar hans í Ruinerwold kölluðu hann „Austurríska-Josef“.

Bild hefur eftir samstarfsmönnum hans að það eina sem þeir hafi veitt athygli í hegðun hans hafi verið að á hverjum degi ók hann á brott frá vinnustaðnum klukkan 15 og var í burtu í um fjórar klukkustundir. Hann vann síðan langt fram á kvöld.

Kronenzeitung segir að maðurinn sé frá Waldhausen en þar ólst hann upp með fjórum systkinum á sveitabæ. Eldri bróðir hans, sem hefur ekki verið í sambandi við hann í 10 ár, segir að þegar maðurinn lauk herskyldu hafi hann komist í kynni við sértrúarsöfnuð.

Notaði samfélagsmiðla

Lögreglan rannsakar af hverju sá elsti í hópi unga fólksins, maðurinn sem kom á barinn, notaði ekki aðgang sinn að samfélagsmiðlum til að biðja um aðstoð. Hann var virkur á Facebook, Twitter, LinkedIn og Instagram fram á sumarið 2010. Eftir það var hann algjörlega óvirkur þar til í sumar að hann skrifaði að hann væri að vinna hjá netfyrirtæki. Það fyrirtæki er til í raun og veru og er skráði í eigu austurríkismannsins. Ungi maðurinn skrifaði margar færslur um mikilvægi náttúruverndar og birti óskýrar myndir sem virðast hafa verið teknar að næturlagi í Ruinerwold og nágrenni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Leituðu að mannabeinum í Tiger King-garðinum

Leituðu að mannabeinum í Tiger King-garðinum
Pressan
Í gær

Lagt hald á kókaín, skartgripi og 13 milljónir punda í „feluboxum“ flutningabíla.

Lagt hald á kókaín, skartgripi og 13 milljónir punda í „feluboxum“ flutningabíla.
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nýskilin kona vann í Lottó – Fyrrverandi eiginmaður hennar vildi ekki lottómiðann

Nýskilin kona vann í Lottó – Fyrrverandi eiginmaður hennar vildi ekki lottómiðann
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hætta framleiðslu Boeing 747 flugvéla

Hætta framleiðslu Boeing 747 flugvéla
Pressan
Fyrir 4 dögum

Neil Young er ósáttur við tónlistarval Donald Trump

Neil Young er ósáttur við tónlistarval Donald Trump
Pressan
Fyrir 4 dögum

Áratugagömul ummæli urðu yfirmanni hjá Boeing að falli

Áratugagömul ummæli urðu yfirmanni hjá Boeing að falli
Pressan
Fyrir 5 dögum

Þriðjungur Breta vill hugsanlega ekki fá bólusetningu gegn kórónuveirunni

Þriðjungur Breta vill hugsanlega ekki fá bólusetningu gegn kórónuveirunni
Pressan
Fyrir 5 dögum

Segir frá margvíslegri áreitni – „Hann vildi sofa hjá mér“

Segir frá margvíslegri áreitni – „Hann vildi sofa hjá mér“