
Hopp Reykjavík eykur nú verulega við deilibíla flotann sinn með innflutningi á 75 nýjum Volkswagen ID.3 PRO rafbílum frá Heklu. Fyrstu þrettán bílarnir eru þegar komnir til landsins og verða teknir í notkun í Reykjavík á næstu dögum.
Viðbótin kemur í kjölfar mikillar aukningar og eftirspurnar í notkun deilibíla og markar mikilvægt skref í átt að sjálfbærari og skilvirkari samgöngum í borginni. Með nýju Volkswagen ID.3 bílunum geta notendur Hopp notið þægilegrar, sveigjanlegrar og umhverfisvænnar akstursupplifunar án þess að þurfa að eiga eða reka eigin bíl.
Notendur sjá hvaða bílar eru næstir þeim í Hopp appinu, geta tekið þá frá og sótt þegar þeim hentar. Ferðinni er síðan lokið með því að leggja bílnum innan þjónustusvæðis Hopp og loka ferðinni í appinu. Deilibílarnir eru til taks á fjölmörgum stöðum innan höfuðborgarsvæðisins en hægt er að skoða þjónustusvæði Deilibíla í appinu með því að smella á bíla táknið í hægra horninu.
Allar greiðslur fara fram í gegnum appið og engin skuldbinding eða áskrift er nauðsynleg. Startgjald fyrir hverja ferð er 650 krónur, en síðan greiðist 65 krónur á mínútu fyrir notkun bílsins.
„Við höfum séð stöðuga aukningu í notkun deilibíla síðustu mánuði og ljóst er að þessi ferðamáti er orðinn raunhæfur hluti af daglegum samgöngum margra borgarbúa. Volkswagen ID.3 PRO fellur einstaklega vel að okkar þörfum. Hann er rúmgóður, sveigjanlegur og hannaður fyrir borgarakstur,“ segir Kristín Hrefna Halldórsdóttir,
framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík.
Volkswagen ID.3 PRO hefur verið einn vinsælasti rafbíllinn á markaðnum undanfarið og nýtur mikilla vinsælda fyrir öfluga drægni, framúrskarandi þægindi og einfaldleika í notkun. Bíllinn er hannaður með áherslu á öryggi og notendavænni tækni, sem gerir hann að kjörnum kosti fyrir þjónustu á borð við Hopp Deilibíla.
„Volkswagen ID.3 PRO er hannaður með framtíðar samgöngur í huga en hann sameinar sjálfbærni, kraft og þægindi í einum bíl. Við erum afar ánægð með að sjá fleiri slíka bíla nýtast í daglegum akstri borgarbúa með Hopp,“ segir Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Heklu.
Deilibílaþjónusta Hopp hefur vaxið hratt frá því að fyrstu bílarnir fóru á göturnar árið 2023 og eru deilibílarnir nú orðnir fastur hluti af samgöngumynstri íbúa í Reykjavík. Með auknum fjölda bíla eykst aðgengi notenda að vistvænum samgöngum, sem stuðlar að minni umferð, lægri losun og betri nýtingu borgarrýmis