fbpx
Sunnudagur 21.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Unnið að endurreisn WOW ?

Í greipum grimmdar

Kolbeinn Þorsteinsson
Mánudaginn 22. janúar 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fyrri tímum var það stundað að setja heilu fjölskyldurnar á sveitina ef yfirvaldi sýndist sem foreldrar væru ekki matvinnungar. Þegar slíkt gerðist var fjölskyldum sundrað tvist og bast og undir hælinn lagt hvers lags vist beið viðkomandi.

Slík var staðan hjá Páli Hannessyni, kvæntum, fjögurra barna föður, þegar hann sagði sig til sveitar vorið 1900 í Kleifahreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Segir að Páll hafi löngum verið upp á kant við sveitaryfirvöld og gengið brösuglega að sjá sínum farborða.

Sleginn á 20 krónur

Á meðal barna Páls Hannessonar var Páll Júlíus. Um sjö ára aldur, 1901, hafði Páll Júlíus verið „sleginn“ bónda nokkrum í Hörgsdal. Gjaldið var einfalt ómagaeftirlag; 54 krónur.

Ári síðar hljóp heldur betur á snærið hjá hreppsnefndarmönnum þegar þeim barst boð frá Oddi Stígssyni, ungum bónda sem nýfluttur var í væsturbæinn á tvíbýlinu Skaftárdal. Tilboðið hljóðaði upp á 20 krónur og skipti engum togum að Páll Júlíus var sleginn Oddi og fór með honum í Skaftárdal að uppboði loknu.

Fjörmikill og glaðsinna

Þegar þarna var komið sögu var ungi drengurinn sagður vera búlduleitur, rjóður í kinnum og frekar grannholda. Sagði bóndinn í Hörgsdal að Páll Júlíus hefði í fyrstu verið ógegninn, en með góðu hefði því verið breytt til betri vegar. Hann hefði verið fjörmikill, glaðsinna og gáskafenginn, en aldrei svikull, hraustur og ekki frekur til matar.
Þannig var sá Páll Júlíus Pálsson sem Oddur í Skaftárdal tekur við og er treyst fyrir árið 1902.

Vottorð um gott atlæti

Ítrekaðar tilraunir föður Páls til að fá drenginn til sín aftur féllu ekki í góðan jarðveg hjá yfirvaldinu og skrifaði oddviti Kleifahrepps meðal annars að hann væri því algjörlega mótfallinn að Páll fengi að fara með son sinn frá Skaftárdal. Hann hefði fengið vottorð um að vel færi um drenginn þar og þar vildi hann vera.

Það átti eftir að breytast með óhugnanlegum hætti.

Líkið var blóðlítið og magurt – svo magurt að telja mátti rifbeinin úr 23 feta fjarlægð – kinnfiskasogið og fitulag með öllu horfið.

Tíðindi af andláti

Fátt segir af högum Páls Júlíusar fyrr en sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu fær bréf dagsett 27. mars 1903. Inniber bréfið þær upplýsingar að Páll Júlíus sé ekki lengur í lifandi manna tölu.

Í kjölfarið kom margt miður geðslegt í ljós um þann aðbúnað sem Páll naut síðustu mánuði sinnar stuttu tilveru. Í stuttu máli lést hann sökum vannæringar og illrar meðferða hjá Oddi Stígssyni í Skaftárdal.

Með eðlilegum hætti framan af

Í lengra máli er óhætt að segja að um hreinan hrylling hafi verið að ræða. Í upphafi sumars 1902 og fram á haust má sennilega segja að störf Páls hafi verið með því sniði sem þá tíðkaðist hjá niðursetningum á hans aldri; kúarekstur og heyskaparvinna um sumarið og síðan hefur hann tekið upp kartöflur ásamt öðru heimilisfólki og hjálpað til í sláturtíðinni.

Síðan gengur vetur í garð og þá þarf að moka undan kúnum, bera mykju út, gefa kúnum og brynna og reka hross til vatns.

Að eigin sögn sótti Oddur sjálfur vatn í fjós og brynnti klárum þegar veður voru vond.

Daufur og uppburðarlítill

Bergur Einarsson, bóndi í austurbænum, bar þó að hann hefði iðulega séð Pál litla sinna þeim verkum í frosti, og einnig að Oddur hefði verið nokkuð harður við pilt og verið „garralegur“ í orði. Bergur sagði einnig að Páll hefði hljóðað þegar Oddur lagði á hann hendur fyrir utan bæjardyrnar.

Rétt fyrir jólaföstu 1902 dvöldu foreldrar Páls, Páll og Pálína Pálsdóttir, í Skaftárdal og síðar sagði Páll Hannesson að sonur hans hefði sagt sér að Oddur beitti hann oft hörðu og væri laus höndin. Sonur hans hefði verið afar ólíkur því sem áður var; yfirkominn af ótta, daufur og uppburðalítill. Var þessi lýsing staðfest af öðrum vitnum sem kölluð voru til þegar dauði Páls Júlíusar var rannsakaður.

Með kolbrand en kvartar aldrei

Sagan segir að Oddur hafi hlerað að meðferð hans á Páli litla væri milli tanna á fólki í sveitinni og þann 11. desember kom faðir Páls í Skaftárdal og sagði drengurinn þá að Oddur væri ekki eins vondur við hann og fyrr. Einnig var það mat þeirra sem létu sig málið varða að Páll litli liði ekki sult þegar þar var komið sögu.

Þremur mánuðum síðar fór að síga á ógæfuhliðina hjá Páli litla. Hann var kominn með opin sár á fætur sem vall úr daunill vilsa. Ekki var leitað til læknis vegna þessa og sárin stækkuðu og Páll hríðhoraðist.

Eftir því var tekið þegar Páll leitaði í austurbæinn að hann átti erfitt með gang, en engum þar var kunnugt um sárin, enda kvartaði hann aldrei. Bergur sagði að þá hefði Páll verið „magur og gauðarlegur“.

Gripinn með kæfubita

Í mars er á bænum vinnukona, Margrét að nafni. Í hennar vitnisburði kemur fram að oft hafi hún heyrt Pál hljóða og gráta við fjósverkin, en einskis spurt. Margrét sagði hann hafa verið „gauðarlegan“ og hið sama orð notaði fleira fólk sem bar vitni í málinu.

Hinn 21. mars, þegar fólk hafði tekið á sig náðir, laumaðist Páll úr rekkju og staulaðist í ólæst loft í bænum þar sem hann vissi að kæfa var geymd.

Þegar hann sneri til rekkju, með smá kæfubita, greip Oddur hann glóðvolgan. Hafði hann voldugan hrísvönd um hönd, dró Pál út fyrir bæjardyr og lét höggin dynja á baki hans.

Næstu nótt rak sulturinn Pál enn og aftur fram úr rúminu í leit að einhverju matarkyns. Um morguninn kemst „þjófnaðurinn“ upp og aftur greip Oddur til hrísvandarins.

Óhugnanlegur vitnisburður

Þann 26. mars, 1903, kvaddi Páll Júlíus Pálsson jarðlífið. Hvað sem vitnisburði þeirra sem eftir lifðu líður þá er óhætt að segja að rýr, magur og illa farinn líkami Páls litla hafi verið sannferðugastur.

Áverkar sáust á gagnauga, efri vör, bak við eyrun og á bakinu. Líkið var blóðlítið og magurt – svo magurt að telja mátti rifbeinin úr 23 feta fjarlægð – kinnfiskasogið og fitulag með öllu horfið. Greinileg merki var að sjá um beinkröm, kolbrandur í báðum stórutám inn að beini og neglur lausar. Aðrar tær voru með minni kolbrandssár en bjúgbólga á báðum fótum. Svo mörg voru þau orð.

Síðasta för Odds

Ekki var talið að hjónin í vesturbænum í Skaftárdal, Oddur Stígsson og Margrét Eyjólfsdóttir, hefðu myrt Pál litla af ásetningi. Margrét var sýknuð, en Oddur viðurkenndi að hafa veitt drengnum áðurnefnda áverka auk þess sem hann sinnti ekkert um sárin á fótum hans.

Oddur var dæmdur til 12 mánaða betrunarvinnu. Þegar hann, að afplánun lokinni, var á leið heim til sín drukknaði hann í Hólmsá.

Heimildir: Morgunblaðið 28.11.1982; Landsyfirréttardómar 7. árg. 1909 og Vikipedia

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 13 klukkutímum

Ronaldo svarar því hvort hann verði áfram hjá Juventus

Ronaldo svarar því hvort hann verði áfram hjá Juventus
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Eitt kjaftshögg var nóg: Árásarmaðurinn sendur í 10 ára fangelsi eftir að nýju lögin tóku gildi

Eitt kjaftshögg var nóg: Árásarmaðurinn sendur í 10 ára fangelsi eftir að nýju lögin tóku gildi
433
Fyrir 14 klukkutímum

Mjólkurbikarinn: Þór strax úr leik eftir óvænt tap

Mjólkurbikarinn: Þór strax úr leik eftir óvænt tap
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Pogba fór á tvöfalt stefnumót ásamt mótherja morgundagsins

Pogba fór á tvöfalt stefnumót ásamt mótherja morgundagsins
433
Fyrir 16 klukkutímum

Sjáðu mögnuð tilþrif Alli í dag

Sjáðu mögnuð tilþrif Alli í dag
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Vampíran í Atlashverfi: Blóð sænsku portkonunnar Lilly Lindeström var drukkið

Vampíran í Atlashverfi: Blóð sænsku portkonunnar Lilly Lindeström var drukkið
Bleikt
Fyrir 17 klukkutímum

Játningar brúðarmeyja sem vissu að hjónabandið væri dauðadæmt

Játningar brúðarmeyja sem vissu að hjónabandið væri dauðadæmt
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Bolað burt og var ráðalaus: ,,Langaði að opna Twitter eða Instagram á hverjum degi“

Bolað burt og var ráðalaus: ,,Langaði að opna Twitter eða Instagram á hverjum degi“
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum
Strokufangar á Íslandi