fbpx
Fimmtudagur 20.nóvember 2025
Leiðari

Þegar ég komst að því að ég væri með feitt bak – „Ef þú myndir missa nokkur kíló þá gætir þú orðið ungfrú Ísland“

Tobba Marinósdóttir
Föstudaginn 19. febrúar 2021 10:30

Tobba Marinós Mynd: Íris Ann

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðari Helgarblaðs DV 19.02.2020 

„Ef þú myndir missa nokkur kíló þá gætir þú orðið ungfrú Ísland,“  sagði þekktur einkaþjálfari við mig á líkamsræktarstöð þar sem ég skokkaði á hlaupabretti.

Ég var í kringum tvítugt og nokkuð ánægð með mig. Ég æfði af kappi og var orðin ansi hraust. Einkaþjálfarinn sem um ræðir var mér eldri kona.

Hún brosti.

Ég horfði hissa á hana. Ég var of þung sem barn en fékk svo mikinn áhuga á líkamsrækt þegar ég var 15 ára og kom mér í gott form. Það fór hins vegar fyrir ofan garð og neðan þegar ég var skiptinemi í Brasilíu en þegar hér er komið sögu var ég í fínu standi – að mér fannst. Sterk með gott þol.

Ég hægði á brettinu og starði opinmynnt á brosandi konuna. Ó. Hún meinti þetta sem hrós. Eða hvað?

„Ha?“ sagði ég, óviss um hverju ég ætti að svara.

„Já það þarf bara að skafa aðeins af þér. Af bakinu. Þú ert með svo fallegt andlit nefnilega.“

Einmitt en feitt bak? Og hvað þýðir það eiginlega þegar fólk segir „hún er svo andlitsfríð“. Er viðkomandi þá ljótur annars staðar?

„Ég gæti hjálpað þér,“ segir hún.

Ég horfði á hana og velti því fyrir mér hvort hún héldi í alvörunni að hún myndi snapa sér viðskipti með þessum hætti. Ef ég hefði ekki verið á ferð hefði ég mögulega skallað hana með fallega andlitinu mínu. Í staðinn sagðist ég ætla að hugsa málið og jók hraðann á brettinu.

Ég hugsa reglulega til þessa atviks og ber það saman við athugasemdir leikfimikennara míns þegar ég var í grunnskóla. Hún var afrekskona í líkamsrækt og talaði aldrei niður til okkar „gelgjanna“ heldur benti okkur frekar á það sem hún hefði viljað gera öðruvísi.

Hún sagðist sjá mikið eftir því að hafa hangið í ljósabekkjum sem ung kona og hafa misþyrmt á sér húðinni. Hún hvatti okkur til að vera alltaf með hollan bita á okkur. Fyrst í skólatöskunni og síðar þegar hún varð
einn eftirsóttasti líkamsræktarkennarinn í bænum og við „gelgjurnar“ að fullorðnast þá sagði hún okkur að hafa hollan bita í veskinu. Borða alltaf nóg af hollum mat.

Þessi kona hefur alltaf verið með hið margrómaða „six pack“ jafnvel nú á fimmtugsaldri en aldrei nokkurn tímann hefði henni dottið í hug að tala mig niður til að „bjarga“ mér frá feitu baki. Hún hvatti mig hins vegar áfram til að prófa hitt og þetta. Ég meiri segja keppti einu sinni í sundi því hún sagði að ég hefði fína möguleika.

Ég var ekki góður sundmaður en ég var upp með mér að vera beðin og prófaði – og prófaði í kjölfarið fleiri íþróttir. Svo fór að ég fann mína hillu í líkamsræktartímum og mætti nánast daglega. Íþróttakennarinn tók eftir því og bað mig um að segja bekknum frá því hvaða æfingar mér þættu skemmtilegastar og „kenna“ einn tíma í kickboxi sem ég stundaði þá af krafti.

Alltaf talaði þessi kennari okkur upp, hvatti okkur til að gera meira, vilja meira, ögra okkur en aldrei var einn tekinn niður til að stækka annan.

Ég fór úr því að skæla af kvíða fyrir „píp-testi“ í að hlakka til – elska áskorunina og styrkinn sem líkaminn bjó yfir. Vitandi að það væri í góðu lagi að geta svo ekki meira. Að því sögðu er „píptest“ samt eitt það glataðasta sem ég veit um.

En hvað veit ég, með mitt feita bak.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Valin besta fyrirtækjatölvan 2025

Valin besta fyrirtækjatölvan 2025
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

SAFÍR20 ný fjármögnunarleið fyrir íbúðir á Orkureitnum

SAFÍR20 ný fjármögnunarleið fyrir íbúðir á Orkureitnum
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Orðið á götunni: Taugaveiklun og óskhyggja stjórnarandstöðunnar

Orðið á götunni: Taugaveiklun og óskhyggja stjórnarandstöðunnar
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Segir hluta af gagnrýni á Bellingham tengjast húðlit hans

Segir hluta af gagnrýni á Bellingham tengjast húðlit hans
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Hefur áhyggjur af skólaskyldunni og krefur menntamálaráðherra um svör

Hefur áhyggjur af skólaskyldunni og krefur menntamálaráðherra um svör
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Fær ekki afhenda samninga um innkaup á Covid-bóluefnum

Fær ekki afhenda samninga um innkaup á Covid-bóluefnum
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Kristrún ræddi kísilmálmtollana við Ursulu von der Leyen – „Sértækt tilvik og ekki fordæmisgefandi“

Kristrún ræddi kísilmálmtollana við Ursulu von der Leyen – „Sértækt tilvik og ekki fordæmisgefandi“
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Guðrún gagnrýnir að til skoðunar sé að rukka Bláa lónið og fleiri fyrir varnargarðana – „Það eru kaldar kveðjur“

Guðrún gagnrýnir að til skoðunar sé að rukka Bláa lónið og fleiri fyrir varnargarðana – „Það eru kaldar kveðjur“
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Enn eitt áfallið í Alheimsfegurð – Keppandi féll af sviði og flutt á sjúkrahús

Enn eitt áfallið í Alheimsfegurð – Keppandi féll af sviði og flutt á sjúkrahús