Tólf ára stúlka og sextán ára piltur tóku eigið líf með stuttu millibili í bænum Barbosa í Kólumbíu í síðasta mánuði. Lögreglan telur að rekja megi ástæðuna til óhugnanlegs snjallsímaleiks, sem ber heitið Momo, sem hvetur ungmenni til að taka eigið líf.
Slíkir leikir hafa verið í umferð, sá alræmdasti er leikurinn Blue Whale sem sagður var hafa orsök allt að 130 sjálfsvíga ungmenna í Rússlandi á árunum 2016 og 2017. Ekki er hægt að fullyrða um beina orsakatengingu á milli leiksins og ákvörðunarinnar um að taka eigið líf, en í febrúar 2017 fóru tvö ungmenni fram af húsþaki í borginni Irkutsk eftir að hafa spilað leikinn. Sumarið 2017 samþykkti rússneska þingið lög svo sem banna hvatningar til sjálfsvíga á samfélagsmiðlum og lög sem banna að hvetja ungmenni til sjálfsvíga.
Blue Whale gengur út á að leysa verkefni á borð við sjálfsskaða og að horfa á ákveðnar hryllingsmyndir, lokaverkefnið er svo að taka eigið líf.
Leikurinn Momo er spilaður í gengum samskiptaforritið WhatsApp og gengur út á að hlýðnast óhugnanlegri persónu, Momo. Momo sendir þátttakendunum skipanir sem verða sífellt verri ásamt því að hóta að leggja bölvun á þátttakendur ef þeir hlýða ekki, að lokum á svo að taka eigið líf.
Lögregla fann leikinn í símum ungmennanna og hvetur nú foreldra og skóla til að vera á varðbergi.