Konu sem stöðvaði í nokkrar mínútur fyrir utan verslunina Húrra á Hverfisgötu brá í brún þegar rukkun kom í heimabankann upp á 9.586 krónur.
Konan segist ekki hafa greitt þar sem hún fór ekki úr bílnum, þó hún hafi vissulega átt að greiða.
„Ég stoppaði í tvær mínútur fyrir utan verslunina Húrra á Hverfisgötu 18 í síðustu viku, var að skutla slasaðri dóttur í vinnuna. Ég greiddi ekki fyrir að stoppa þar, sem ég hefði réttilega átt að gera, en datt það ekki í hug þar sem ég fór ekkert út úr bílnum. Stoppaði bara í augnablik.“
Segist konan í í kjölfarið hafa fengið rukkun í heimabankann upp á 9.586 kr.
Í samtali við DV segir konan að ekki komi fram á reikningnum á hvaða tíma hún var á stæðinu, eða réttara sagt fyrir hvað langan tíma hún er rukkuð fyrir.
„Ef fyrirtækið, Parka Lausnir ehf. gat tekið mynd af bílnúmerinu þegar ég keyrði inn á stæðið, ætti það auðveldlega að geta skráð bílinn út þegar ég keyrði út af stæðinu og rukkað mig fyrir tímann sem ég var á stæðinu. Það hefði þá getað rukkað mig fyrir þessar 5 mínútur og einhverja þóknun, jafnvel.“
Þegar heimasíða Parka er skoðuð má sjá að greiðsla fyrir stæðið að Hverfisgötu 18 er 800 krónur á klst. fyrstu tvær klukkustundirnar. Verðið eftir það er 1.200 kr. Á klst. Bílastæðið er opið allan sólarhringinn og rukkað er allan sólarhringinn. Ef ekki er greitt innan 24 klst. Þá er vanskilagjald að upphæð 1.960 krónur lagt á. Viðskiptagjald (e. Transaction Fee) upp á 86 krónur er einnig rukkað. (Það gjald er ávallt rukkað, einnig þegar greitt er fyrir bílastæði um leið og stæðið er yfirgefið).
„Ég er svo sem fylgjandi því að fyrirtæki geti innheimt þóknun fyrir veitta þjónustu og sé heimilt að ákveða gjaldskránna, en þetta er nú meira bullið og mér finnst þeir fara frjálslega með frelsið. Er þetta ekki eitthvað spes?“
Bendir konan á að Parka fékk 1 milljón í stjórnvaldssekt í sumar fyrir ýmis brot og ólögmæta viðskiptahætti.
DV fjallaði í júní um niðurstöðu Neytendastofa í fjórum úrskurðum sínum að fyrirtækin EasyPark, Green Parking ehf., Isavia Innanlandsflugvellir og Parka Lausnir ehf., hafi brotið gegn lögum um góða viðskiptahætti sem og reglum um verðmerkingar með því að veita ekki upplýsingar um öll gjöld tengd stæðunum. Var fyrirtækjunum gert að greiða stjórnvaldssektir.
Sjá einnig: Segja vangreiðslugjöld ólögmæt – Kalla eftir skýrum reglum til að koma böndum á bílastæðabraskið