Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tók á þriðjudag þátt í fundi leiðtoga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, NB8-ríkjanna svokallaðra, með Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta í Kaupmannahöfn, í boði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.
Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, er hugsi yfir ýmsu sem kemur fram í tilkynningunni og bendir á að Ísland hefur þá sérstöðu meðal NBB-ríkjanna að vera herlaust land sem auk þess er ekki í nálægð við Rússland.
Hilmar Þór segir:
„Norrænt samstarf og samstarf okkar við Eystrasaltsríkin getur verið gagnlegt upp að vissu marki en stundum getur það sett okkur í vandræðalega stöðu. Íslenski forsætisráðherrann tók í gær þátt í fundi leiðtoga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, NB8-ríkjanna svokallaðra, með Vólódímír Zelenskí Úkraínuforseta, í Kaupmannahöfn, í boði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur í gær.
Á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands segir um þetta: „Sögðu leiðtogarnir í yfirlýsingu sinni að þeir hyggist efla enn frekar stuðning sinn við Úkraínu og að brýnt sé að hraða flutningi vopna, skotfæra og loftavarnarkerfa til Úkraínu hið fyrsta.“
Ég veit ekki hvort Kristrún skuldbatt Ísland eitthvað á þessum fundi umfram það sem áður hefur verið gert varðandi vopnakaup en ég tel að Ísland eigi ekki að koma nálægt flutningi vopna eða vopnakaupum sem yrðu að fara í gegnum þriðja aðila, þar sem við framleiðum engin vopn sjálf og erum herlaust land.
Öll löndin á fundinum hafa her nema Ísland og öll Norðurlöndin nema Ísland framleiða vopn. Þetta vita allir ráðherrarnir á þessum fundi og engum dettur í hug að vegna Úkraínustríðsins eigi Ísland að fara að framleiða vopn eða stofna her.“
Hilmar telur að vegna sérstöðu sinnar eigi Ísland að veita annars konar aðstoð en vopnakaup og Ísland ætti að vera búið að móta sér stefnu um aðstoð á borgaralegum forsendum:
„Þetta gætu t.d. verið stoðtæki þar sem við erum í fremstu röð í heiminum. Þetta nýttum við okkur þegar við aðstoðuðum Bosníu og Hersegóvínu á sínum tíma og var vel metið hjá NATO. Það er alveg ljóst að vopnaskortur er orðið vandamál í Úkraínu en skortur á mannafla er jafnvel enn meira vandamál en vopnaskortur. Á bak við hvern hermann frá Úkraínu sem er á víglínunni þarf nokkra almenna borgara sem halda hagkerfinu gangandi og greiða skatt t.d. til þess að hægt sé að greiða þeim sem berjast laun og sjá til þess að þeir og fjölskyldur þeirra hafi það sem þau þurfa. Ef við gerum t.d. fólk sem misst hefur fætur vinnufært erum við að gera mikið gagn. Okkar ráðherra gæti lagt fram okkar áætlun um slíka aðstoð á ráðherrafundi þar sem við gætum verið að aðstoða þúsundir manna á einhvern hátt. Það væri engin skömm að því fyrir Ísland. Öllum er kunnugt um okkar sérstöðu í þessu máli.“
„Einnig segir á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands: „Jafnvel þótt stríðið virðist mörgum fjarlægt þá er stuðningur okkar við Úkraínu beintengdur öryggishagsmunum Íslands, á meðan ógnin frá Rússlandi er jafn viðvarandi og raun ber vitni.“ Það er alveg ljóst að hin Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin eru miklu nær Rússlandi en Ísland og á mun meira hættusvæði. Í raun eru þau í bakgarði Rússlands, sem á ekki við um Ísland. Átök á Eystrasaltinu eða í kringum Kaliningrad eða við landamæri Eystrasaltsríkjanna, Finnlands eða Noregs við Rússland, eru fjarri okkur.
Ég held að yfirvöldum í Rússlandi detti ekki í hug að við séum á sínu áhrifasvæði eða í bakgarði þeirra. Ef við erum á áhrifasvæði einhvers stórveldis þá er það áhrifasvæði Bandaríkjanna. Við vitum að ef við kaupum vopn í gegnum þriðja aðila verða þau notuð gegn stórveldi í stríði og ólíkt hinum Norðurlöndunum erum við vopnlaus og herlaus þjóð. Verðum við öruggari í kjölfarið? Síðan er óvissa meiri í Bandaríkjunum en oftast hefur áður verið, eins og öllum má vera orðið ljóst.“
Hilmar telur að vopnakaup Íslands auki hættu á að kröfur komi fram um Ísland teki þátt í hernaðarhluta NATO og stórauki útgjöld til varnarmála:
„Það var alveg ljóst að þegar við gengum í NATO árið 1949, að við værum vopnlaus og herlaus þjóð og við gerðum þess vegna líka varnarsamning við Bandaríkin árið 1951. Til þess að vera sjálfum okkur samkvæm þá eigum við að halda okkur við borgaralega hluta NATO, ekki hernaðararminn. Að öðrum kosti gæti sú krafa líka komið fram að við greiðum 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála og þá verða íslensk ríkisfjármál ósjálfbær nema með miklum niðurskurði í velferðarmálum.“
„Svo velti ég fyrir mér afstöðu Íslands til svokallaðs bandalags viljugra þjóða („coalition of the willing”) sem Bretar og Frakkar eru í forystu fyrir. Er verið að tala um að senda friðargæsluliða frá NATO ríkjum inní Úkraínu? Það er alveg ljóst að yfirvöld í Rússlandi myndu líta á slíka aðila sem NATO hermenn og þess vegna væri þetta óraunhæft sé ætlunin að gera friðarsamninga við Rússa.
Vestrænir leiðtogar hafa líka lagt áherslu á vopnahlé á meðan Rússar hafa lagt áherslu á friðarsamninga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er lítil von um að stríðinu ljúki við þessar aðstæður á náinni framtíð. Svo finnst mér þetta tal um „coalition of the willing” óheppilegt því þetta var líka notað um löndin sem gerðu innrás í Írak árið 2003 sem a.m.k. sum lönd vilja helst gleyma að hafa nokkurn tíma stutt eða tekið þátt í. Að því leyti væri annað orðalag yfir þetta samstarf heppilegra. En raunar tel ég að þessi friðargæsluhugmynd sé andvana fædd.“