Lögregla skarst í leikinn eftir að maður sást fróa sér í stúku á tónleikum bandarísku þungarokkssveitarinnar KoRn í New Jersey fyrir skemmstu. Annar tónleikagestur réðist á manninn og sló hann í höfuðið.
Óhætt er að segja að margir séu í losti eftir atvikið sem átti sér stað á tónleikum á MetLife vellinum í East Rutherford í New Jersey miðvikudaginn 27. ágúst. Hljómsveitirnar KoRn og System of a Down léku þar fyrir dansi en það var atvik í stúkunni sem greip fyrirsagnirnar.
Það er þegar KoRn voru að spila reif einn áhorfandi á fremsta bekk út á sér liminn og byrjaði að fróa sér af miklum móð innan um aðra tónleikagesti.
Var fólki augljóslega mjög brugðið, sumir fylltust viðbjóði en aðrir reiddust. Meðal annars einn ungur maður sem sá hvað var að gerast úr fjarska, kom askvaðandi og sló manninn í höfuðið.
Seinna í myndbandinu sést að lögregla og öryggisverðir hafa verið kallaðir til við að fjarlægja manninn fyrir þetta ósæmilega athæfi. En ekki gekk það friðsamlega fyrir sig og þurftu laganna verðir að bera manninn út.
Ekki hefur fengist staðfest hvers vegna maðurinn gerði þetta eða hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. En undarleg var þessi hegðun í meira lagi.