Alræmdur síbrotamaður, Mohamad Kourani, sem hlaut átta ára fangelsi í fyrra í fyrir manndrápstilraun og fleiri brot, hefur afsalað sér alþjóðlegri vernd. Þannig getur hann, samkvæmt ákvæðum í lögum um fullnustu refsinga, losnað við helming refsingar sinnar en þarf að yfirgefa landið og má ekki komað hingað aftur í tiltekinn tíma. Vísir greinir frá þessu og segir að endurkomubannið sé 30 ár.
Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Kourani, segir að Kourani hafi ekki áhuga á að snúa aftur til Íslands eftir að hann hefur verið fluttur til Sýrlands, eins og er fyrirsjáanlegt þegar hann hefur lokið afplánun.
Kourani fékk alþjóðlega vernd hér á landi ári 2018 og hefur síðan þá framið yfirgengilegan fjölda af afbrotum. Mál hans varð til þess að unnið hefur verið að þeirri breytingu á útlendingalögum að hægt verði að afturkalla alþjóðlega vernd fólks sem fremur alvarlegan glæp eða ógnar öryggi í landinu. Hefur Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra boðað slíka lagabreytingu.