Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason deildi í gær færslu sem þingmaðurinn Snorri Másson ritaði á X um morðið á bandaríska íhaldsmanninum Charlie Kirk.
Snorri segir í umræddri færslu að miðvikudaginn hafi verið svartur dagur fyrir málfrelsi á Vesturlöndum. Um ólýsanlegt voðaverk sé um að ræða sem feli í sér árás „gegn frelsi okkar allra“. Færslunni lauk þingmaðurinn á orðunum: „Nú er að verjast“.
Egill skrifaði um færsluna:
„Játa að ég skil ekki þessa færslu hjá íslenskum alþingismanni. Við búum á Íslandi þar sem stjórnmál eru allt öðruvísi en í Bandaríkjunum. Við leyfum heldur ekki almenningi að ganga um með byssur. MAGA er okkur framandi hugmyndafræði. Hverju eigum við þá að verjast?“
Líflegar umræður áttu sér stað í athugasemd við færslu fjölmiðlamannsins. Þar taka margir undir með Agli og segja orðræðu Snorra innflutta frá Bandaríkjunum. Eins sé undarlegt að tala um morðið sem árás á málfrelsi í ljósi þess að Kirk hafði sjálfur staðið fyrir ofsóknum gegn kennurum sem þóttu of frjálslyndir.
Aðrir benda á að Snorri hafi sjálfur þurft að fá öryggisvöktun við heimili sitt og að í kjölfar morðsins á Charlie Kirk hafi Íslendingur birt myndband á TikTok og annar skrifað athugasemd á X þar sem lagt var til að Snorri yrði næstur til að falla í valinn. Hann sé því ekki að tala út í tómið þegar hann tali um að nú þurfi að verjast.
Þá vekur athygli að amma Snorra, Helga Kress prófessor emeritus, hnýtti hressilega í barnabarn sitt. Hún skrifar í athugasemd hjá Agli um færslu Snorra:
„Gegnsær populismi, hallærislegt.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helga lætur í sér heyra. Þannig gagnrýndi hún harðlega málþóf stjórnarandstöðunnar, í sumar þar sem Miðflokkurinn og Snorri sjálfur voru fremst í stafni.