Nokkuð fjölmennur mótmælendafundur stendur yfir í Anchorage í Alaska, þar sem leiðtogafundur Trump og Putin um Úkraínustríðið verður haldinn í kvöld. CNN greinir frá þessu á fréttavakt sinni í aðdraganda fundarins.
Mótmælendur eru íklæddir fánalitum Úkraínu og bera mótmælaskilti með ýmsum slagorðum, t.d. að Úkraína sé ekki til sölu og að engir friðarsamningar geti átt sér stað án aðkomu Zelensky, forseta Úkraínu. Sumir mótmælendur draga í efa hæfni Trumps til að semja við Putin.
Donald Trump hefur nú yfirgefið Hvíta húsið og er farinn af stað til Alaska. Á samfélagsmiðli sínum Truth Socials birtir hann einföld skilaboð: Mikið í húfi!
Fundurinn hefst um kl. 19:30 í kvöld að íslenskum tíma.