Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, greinir frá því á samfélagsmiðlum að spádómsgáfa hans sé ekki merkilegur pappír. Hefur hann þrisvar á skömmum tíma flaskað á spádómum.
„Þegar ég heyrði fyrst hvíslað um það að Katrín Jakobsdóttir hygðist bjóða sig fram til embætti forseta þá vísaði ég því alfarið á bug og kallaði slíkt tal þvaður og bað ekki heldur skipaði fólki að hlífa mér við því. Ég sagði það absúrd pælingu og jafnvel ólöglegt að sitjandi forsætisráðherra tæki upp á slíku,“ segir Jón í færslunni, en hann var sjálfur í framboði eins og flestir muna.
Bætti hann því við að Katrín væri dúx og færi skipulega og varlega yfir, gæti verið ákveðin en svona fáránleg hugmynd væri svipað og ef reyndur göngumaður viki af hefðbundinni leið og hlypi blindandi út í óvissu.
„Ég veðjaði 5000 krónum uppá það að Þórdís Kolbrún myndi bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins,“ segir Jón um spádóm númer tvö sem rættist ekki. „Ég var hlæjandi á meðan því ég var svo handviss um að ég væri að fara að vinna.“
Sá síðasti lýtur að nýloknu páfakjöri þar sem hinn bandaríski Robert Prevost var kjörinn.
„Nú síðast fullyrti ég við menn ítrekað að næsti páfi yrði líklegast Ítali. Hvar sem þetta bar á góma skólaði ég fólk í undraheimi páfakjörs. Þegar einhver myntist á þennan Bandaríska kardínála þá svaraði ég því með hnussi og jafnvel örlitlum hæðnishlátri og sagði svo: Ameríkani verður ALDREI páfi !,“ segir Jón. „Hef nú komist að því að ég er enginn spámaður um neitt og það viðurkennist hér. En góða helgi !“