fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Ertu á atvinnuleysisbótum og þarft að eiga við Vinnumálastofnun? – Ekki gera sömu mistök og þessir gerðu

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 7. maí 2025 20:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stundum gengur ekki allt upp eins og maður óskaði sér og þá er ágætt að hafa úrræði á borð við atvinnuleysisbætur til að brúa bilið þegar í harðbakkann slær. Þá þarf gjarnan að eiga við bókstafstrúarfólkið hjá Vinnumálastofnun þar sem er nauðsynlegt að hafa vaðið fyrir neðan sig, kynna sér vel lög og reglur – og fara svo eftir þeim í einu og öllu. Annars gæti maður setið eftir með sárt ennið og tekjulaus.

Þeir sem ekki sætta sig við ákvarðanir Vinnumálastofnunar geta leitað til úrskurðarnefndar velferðarnefndar. Nefndin birti á dögunum úrskurði sem voru kveðnir upp í janúar en þeir geta verið öðrum bótaþegum víti til varnaðar. Hér er rakið hvar fór úrskeiðis í þessum málum þar sem úrskurðarnefndin staðfesti í öllum tilvikum ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur til brotlegra bótaþega mánuðum saman.

1 Þegar til fundar er boðað er best að mæta eða boða forföll sem fyrst

Vinnumálastofnun hafði í einu málanna stöðvað greiðslur til bótaþega í tvo mánuði. Sá hafði gerst brotlegur með því að mæta ekki á fund sem stofnunin hafði boðað hann til. Ekki er óalgengt að til slíkra funda sé boðað með sólarhringsfyrirvara en í þessu tilviki mætti bótaþeginn ekki á fundinn og boðaði engin forföll.

Engar skýringar bárust á forföllunum fyrr en Vinnumálastofnun gekk á eftir þeim. Þá sagðist bótaþeginn hafa orðið svo veikur að hann gat hvorki svarað fundarboði með síma eða tölvupósti. Úrskurðarnefndin féllst ekki á þessa afsökun. Hér hefði bótaþeginn getað haft samband fyrir fundinn til að boða forföll eða haft frumkvæði að því að skýra forföllin. Það gerði hann ekki. Lögin séu skýr hvað upplýsingaskyldu bótaþega varðar og ef brotið er gegn þessari skyldu kallar það á viðurlög. Vinnumálastofnun var því frjálst að sekta viðkomandi með því að stöðva til hans greiðslur í tvo mánuði.

2 Refsingarnar verða þyngri eftir því sem brotin verða fleiri

Í sambærilegu máli voru greiðslur stöðvaðar til bótaþega í þrjá mánuði. Sá reyndi að halda því fram að hann hefði boðað forföll en úrskurðarnefndin rakti að viðkomandi hefði í reynd ekki gert það enda engin slík samskipti að finna í kerfum Vinnumálastofnunar. Þess í stað hefði viðkomandi aftur forfallast nokkru síðar og í það skiptið tilkynnt forföllin. Bótaþeginn sem fjallað er um að ofan var sviptur greiðslum í tvo mánuði fyrir sambærilegt brot. Í þessu máli var bótaþeginn sviptur greiðslum í þrjá mánuði. Úrskurðarnefndin rakti að bótaþeginn hefði áður verið beittur viðurlögum fyrir að mæta ekki á fund svo hér var um annað brot að ræða sem þýddi þyngri viðurlög.

3 Það þarf að tilkynna um utanlandsferðir

Þriðji úrskurðurinn fjallar um bótaþega sem þurfti nauðsynlega að ferðast erlendis vegna skyndilegs andláts í fjölskyldunni. Hann vanrækti þó að tilkynna um ferðina til Vinnumálastofnunar. Stofnunum komst að ferðalaginu bara því að viðkomandi var boðaður á fund á meðan hann dvaldi erlendis. Hann boðaði forföll vegna veikinda en Vinnumálastofnun las það úr svari hans að hann væri ekki á landinu og krafðist skýringa. Úrskurðarnefndin rakti að bótaþegum beri að tilkynna um utanlandsferðir án ástæðulauss dráttar. Bótaþeginn hér tilkynnti hvorki um ferðina áður en lagt var af stað, né leitaðist eftir því að upplýsa um ferðina síðar. Honum hefði verið í lófa lagið að kynna sér hvort honum bæri að tilkynna um ferðalagið og í raun hefði bótaþeginn vel mátt vita að slík skylda væri fyrir hendi. Þar með hafði hann brotið gegn tilkynningarskyldu og unnið sér inn refsingu. Greiðslur voru stöðvaðar í tvo mánuði.

4 Þú þarft að taka óunna orlofsdaga

Næsti úrskurður varðar ótekið orlof. Þarna hafði bótaþegi átt 22 daga í ótekið orlof sem hann fékk greitt út þegar hann lauk uppsagnarfresti í vinnu sinni. Þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur tók hann ekki sérstaklega fram hvenær hann vildi taka þetta orlof. Því gekk Vinnumálastofnun út frá því að hann tæki út orlofið áður en bótatímabil hæfist. Úrskurðarnefndin tók fram að viðkomandi hefði vel getað tekið þetta orlof á öðrum tíma, en hafi aldrei óskað eftir slíku. Það liggi ljóst fyrir að fólk á ekki rétt á atvinnuleysisbótum á orlofstíma.

5 Þú getur ekki breytt upphafsdegi umsóknar

Einn bótaþegi vildi breyta upphafsdegi umsóknar sinnar. Hann hafði sótt um bætur 30. maí, 30. júní, 3. júlí og svo 9. september. Bótaþeginn hafði á þessu tímabili aldrei staðfest atvinnuleit en vildi meina að honum hefði verið það ómögulegt þar sem kerfi Vinnumálastofnunar hefði ekki boðið upp á það því hann hafi óvart sótt um ranga þjónustu. Loks þegar hann sendi þá umsókn sem Vinnumálastofnun svo samþykkti vildi hann gjarnan fá afturvirkar greiðslur til að miða við fyrstu umsókn.

Úrskurðarnefndin rakti að það kemur skýrt fram í lögum að atvinnuleysisbætur beri að miða við þann tíma sem Vinnumálastofnun móttekur umsókn. Í þessu máli var það umsóknin frá 9. september en fyrir þann tíma hafi bótaþeginn ekki átt gilda umsókn og því engan rétt haft til greiðslna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Næstdýrasta bensínið á Íslandi – Bara Hong Kong slær okkur við

Næstdýrasta bensínið á Íslandi – Bara Hong Kong slær okkur við
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Eldri maður fannst í angist úti á götu – „Ef þeir myndu velja konur á þeirra aldri væru þeir ólíklegri til þess að verða plataðir“

Eldri maður fannst í angist úti á götu – „Ef þeir myndu velja konur á þeirra aldri væru þeir ólíklegri til þess að verða plataðir“
Fréttir
Í gær

Indland gerir flugskeytaárás á Pakistan

Indland gerir flugskeytaárás á Pakistan
Fréttir
Í gær

„Við erum ekki með verkfallsrétt…en allur hópurinn er hins vegar með atkvæðisrétt og þá byrja menn að sperra eyrun“

„Við erum ekki með verkfallsrétt…en allur hópurinn er hins vegar með atkvæðisrétt og þá byrja menn að sperra eyrun“