Kona sem var í fréttum fyrir skömmu eftir átök við starfsmann verslunarinnar Nordic Market – og í vetur fyrir að stela kettinum Diego – er sögð halda nágrönnum sínum í fjölbýlishúsi við Bríetartún í heljargreipum ofbeldis, þjófnaða og skemmdarverka, og er þá ónefnt stöðugt hávaðaónæði um nætur.
Flestar íbúðir í húsinu – og allar í stigaganginum þar sem konan býr – eru í eigu Félagsbústaða sem leigja þær út til skjólstæðinga sinna. Íbúarnir og aðrir sem DV hefur rætt við vegna málsins gagnrýna að fólki sem í raun ætti heima í lokuðu úrræði og er hættulegt umhverfi sínu sé komið fyrir í íbúabyggð af þessu tagi.
„Hún fer í „vinnuna“ kl. 12 á miðnætti og er að alla nóttina fram til sjö um morguninn við að ræna og rupla út um allt, því það er hennar vinna. Hún er búin að brjótast inn í allar íbúðir hér líka og í allar geymslur,“ segir einn íbúi sem DV ræddi við.
Íbúarnir vilja ekki koma fram undir nafni af ótta við konuna. Hún er meðal annars sökuð um að ógna nágrönnum sínum með exi, berja í íbúðahurðir með hamri og fremja margskonar önnur skemmdarverk í stigaganginum.
„Hún er búin að eyðileggja ljósleiðarasystemið í húsinu oftar en einu sinni. Auk þess að vera sístelandi er skemmdarfýsnin líka óseðjandi. Hún rífur ljósleiðarann úr sambandi í sameigninni og hún hefur rústað rafmagnsleiðslum sem liggja að íbúðinni hennar,“ segir einn íbúinn og annar lýsir eftirfarandi skemmdarverkum:
„Hún beyglar öll sameiginleg hurðarjárn, að útihurðum að framan og aftan og líka inn í sameign, þannig að dyrnar lokast ekki almennilega. Myndavélakerfið eyðilagði hún. Einu sinni skrúfaði hún fyrir heita vatnið hjá hálfum stigaganginum og þeir íbúar voru án heits vatns hluta úr degi.“
Íbúar segja sprautunálar liggja eins og hráviði eftir konuna víðsvegar í sameigininni. Einn greinir frá því að þegar gömul kona sem býr í húsinu lagðist á sjúkrahús hafi konan brotist inn til hennar og stolið öllu steini léttara, síðan stolið þvottavélinni hennar úr sameigninni.
Konan er meira að segja sögð hafa tekið virkan og hrottafullan hátt líkamsárás og hópnauðgun á konu sem býr í húsinu.
Lögregla og félagsbústaðir aðgerðalítil
Íbúarnir segjast hafa gefist upp á því að kvarta undan framferði konunnar við Félagsbústaði. Kvörtunum sé lítið sinnt og í seinni tíð sé meira að segja hætt að gera við eftir skemmdarverk hennar. „Þeir máluðu samt stigaganginn fyrir skömmu en hann varð samt fljótt aftur útkrotaður eftir hana,“ segir einn íbúinn.
Lögregla hefur eins og gefur að skilja oft verið kölluð á vettvang en stundum gera lögreglumennirnir ekki annað en að banka á dyrnar hjá síbrotakonunni og fara síðan burtu af vettvangi þegar hún svarar ekki.
„Hún hagar sér eins og hún sé ósnertanleg,“ segir einn íbúinn. Hann segir konuna geta leyft sér að haga sér eins og hana sýnist án þess að nokkrar afleiðingar séu af framkomu hennar. Allir íbúarnir í stigaganginum búi við stanslaust óöryggi og ógn vegna hömlulauss framferðis hennar.
Ekki tókst ná sambandi við Félagsbústaði við vinnslu fréttarinnar. Leitað verður svara hjá henni síðar.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af ummerkjum skemmdarverka og slæmrar umgengni konunnar.