DV hefur undanfarna mánuði fengið ábendingar um að á sumum erlendum snyrtistofum hér á landi tíðkist starfshættir sem falla undir mansal. Í handbók fyrir starfsfólk stéttarfélaga segir um mansal:
„Mansal er þegar einstaklingur eða hópur einstaklinga nýtir sér bága stöðu annarrar manneskju með eigin gróða að leiðarljósi. Hin formlega skilgreining er þríþætt; hún tekur til verknaðar, aðferða og tilgangs. Skilgreining felur í sér að:
1. Skipuleggja flutning, flytja, hýsa eða taka við einstaklingi þar sem valdi er beitt eða annarskonar nauðung og hótunum.
2. Brottnám, svik og blekkingar.
3. Þegar bág staða einstaklings er nýtt og skiptir samþykki hans þá ekki máli“
Ábendingar og ásakanir sem beint hefur verið til DV um þessi mál snerta víetnamskar snyrti- og nuddstofur. Er þar saga eins aðila studd gögnum sem ýta undir sanngildi hennar en fyrst og fremst er um að ræða frásagnir veittar í trúnaði af hendi aðila sem þekkja til starfsemi fyrirtækjanna. Er það sagt tíðkast að krefja starfsfólk um 300 þúsund króna mánaðarlegan „skatt“ til að fá að vinna hjá fyrirtækinu og sé þetta gjald ekki greitt vofir yfir riftun á starfssamningi sem leiðir til að viðkomandi missir dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi.
Dæmi eru um að kvenkyns nuddarar freistist til að bjóða upp á kynferðislega þjónustu til að drýgja tekjur sínar og ná þannig endum saman eftir að hafa greitt þetta óhóflega nauðungargjald til vinnuveitenda sinna. Síðan eru dæmi um að stúlkur sem ekki ná að standa undir þessum kvöðum grípi til þess ráðs að ganga í málamyndahjónaband með einstaklingi sem hefur íslenskt dvalarleyfi.
Íbúar utan Schengen-svæðisins hafa að öllu óbreyttu ekki rétt til atvinnuleyfis á Íslandi. Leyfi er hins vegar veitt ef viðkomandi getur sýnt fram á sérfræðiþekkingu sem nýtist í starfi hér á landi. Við slíkar umsóknir kemur vinnuveitandi sterklega við sögu því aðilar utan Schengen-svæðisins geta fengið atvinnuleyfi hér á grundvelli ráðningarsamnings í sérfræðistarf og menntunar í viðkomandi starf.
Misbrestur er á gæðum prófskírteina atvinnuleyfishafa utan Schengen-svæðisins og má fullyrða að margir hafi fengið atvinnuleyfi á grundvelli falsaðra skírteina. DV fjallaði um þetta í marsmánuði síðastliðnum:
Þetta vandamál, það er ófullnægjandi prófskírteini, tengist líka ofannefndum nuddstofum eins og kom fram við eftirlit lögreglu í aprílmánuði:
DV sendi fyrirspurn til lögregluyfirvalda um meint misferli á víetnömskum nuddstofum. DV nefndi í fyrirspurn sinni ásakanir um mansal og vændi. Í svörum lögreglu kom ekkert fram sem staðfesti slíkt en ýmislegt annað var nefnt til sem ábótavant hefði verið við eftirlit lögreglu með þessum vinnustöðum, meðal annars ógild meistarabréf.
Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri sendi DV eftirfarandi svar:
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, [hafði] ásamt Skattinum, Vinnueftirlitinu og heilbrigðiseftirliti á viðkomandi svæði, eftirlit með fyrirtækjum sem veita nudd og snyrtiþjónustu líkt og þú nefnir. Tilgangur eftirlitsins var að kanna hvort þarna væri staðið skil á gjöldum, gild meistarabréf og hvort gætt væri heilbrigðis á vinnustaðnum varðandi hreinlæti. Eftirlit var framkvæmt í byrjun apríl.
Í nokkrum tilfellum kom í ljós að fyrirtækin voru ekki með tilskilið starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum. Einnig kom í ljós að einhver fyrirtækjanna voru ekki með gild meistarabréf og þau mál sæta frekari skoðunar hjá lögreglu.
Þér til upplýsinga þá var einu fyrirtækinu lokað núna nýlega þar sem það hafði ekki bætt úr athugasemdum sem komu frá heilbrigðiseftirlitinu. Þegar hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum.
Við munum vera með áframhaldandi eftirlit með þessari starfsemi.“