Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,9 prósent í nýrri könnun Maskínu. Það er undir kjörfylgi flokksins frá því í haust sem var 19,4 prósent.
Flokkurinn reis skömmu eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður en hefur nú dalað aftur.
Hinir tveir stjórnarandstöðuflokkarnir, Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, tapa einnig fylgi. Miðflokkurinn tapar 0,6 prósentum og mælist með 9,7 og Framsókn tapar 0,4 prósentum og mælist með 6,8 prósent.
Hagur ríkisstjórnarinnar vænkar hins vegar. Samfylkingin eykur fylgi sitt um 1,2 prósent og mælist með 27,4 prósent. Viðreisn bætir einnig prósentustigi og mælist með 16,8 prósent. Flokur fólksins er eini ríkisstjórnarflokkurinn sem tapar fylgi, það er 0,7 prósentum, og mælist nú með 7,2.
Könnunin var gerð 9. til 22. maí. Svarendur voru 1.962.