fbpx
Föstudagur 23.maí 2025
Fréttir

Áslaug Arna segist ekki hafa verið full í ræðustól Alþingis – „Stenst enga skoðun og kollegar mínir geta staðfest“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 23. maí 2025 14:23

Tvær fréttir birtust um Áslaugu Örnu í dag.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafnar því að hafa verið drukkin í ræðustól Alþingis þegar verið var að ræða um leigubílamál. Getgátur um það hafa birst í fjölmiðlum.

„Ég vandist því snemma, sem ung kona í forystu stjórnmálanna, að verða fyrir umfjöllun og umræðu um mína persónu sem oft byggir á hróplegum ósannindum og hreinum rangfærslum. Það er freistandi að svara alltaf fyrir slíkt en almennt hef ég látið það kyrrt liggja,“ segir Áslaug Arna í færslu á samfélagsmiðlum nú síðdegis.

Vísar hún til tveggja frétta sem hafi birst í dag. Annars vegar fréttar í Heimildinni um að hún hafi sótt um nám í Bandaríkjunum fyrir landsfund. Hins vegar frétt á Vísi þar sem því er velt upp hvort hún hafi verið „slompuð“ í þingsal.

„Það er ákvörðun að vera opinber persóna, undir smásjá fjölmiðla og þurfa sífellt að standast kröfur um flekkleysi. Ég hef reynt að njóta lífsins og vera ég sjálf undir þessum kringumstæðum – þó mörgum vina minna þyki ég reyndar hafa fórnað óþarflega miklu fyrir stjórnmálin,“ segir hún og jafn framt segir hún að báðar fréttir séu rangar.

„Heimildin heldur því fram að ég hafi sótt um nám fyrir landsfund, það er rangt. Þar standa þau ekki undir nafni og afla sér heimilda en einkar auðvelt er að sýna fram á staðfestingu frá skólanum um það hvenær umsókn mín barst. Ég fékk undanþágu, sem ég óskaði eftir að loknum landsfundi, vegna sérstakra kringumstæðna og vann að umsókninni allan marsmánuð og skilaði henni ekki fyrr en 2. apríl. Stjórnmálin og Sjálfstæðisflokkurinn áttu hug minn allan fram að landsfundi og ég ekki farin að huga að öðru,“ segir Áslaug.

„Vísir heldur því síðan fram að ég hafi verið „slompuð” á Alþingi, það er líka rangt,“ segir hún einnig. „Í vikunni var fádæma veðurblíða og virtust flestir Íslendingar njóta sólargeislanna. Sjálf fékk ég mér vínglas á meðan ég spilaði Backgammon með vinkonu og nældi mér í sólbruna. Af þessu birtist mynd á samfélagsmiðlum. Þá hélt ég ræðu fyrir erlenda gesti um íslenska nýsköpun ofl. í BioEffect, þar sem ég skálaði við þá en þáði þó bara kaffi að drekka, ekki að það kalli á nákvæmar útlistingar. Mannlíf tók upp á því að gera þetta tortryggilegt, birti myndina á vefsíðu sinni og lét að því liggja að ég hefði mætt óvenju þreytt í ræðustól Alþingis síðla kvölds sama dag. Nú hafa fleiri miðlar tekið í sama lágkúrulega streng. Þetta eru auðvitað fráleitar ávirðingar að láta liggja að einhverju sem stenst enga skoðun og kollegar mínir geta staðfest.“

Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar, sem skrifaði frétt Vísis um meintan slompleika, svarar Áslaugu Örnu í athugsemd og sakar hana um undanbrögð.

„Þetta er vandamálið, stjórnmálamenn telja sig geta sagt hvað sem er um fjölmiðla, og farið frjálslega með staðreyndir, án þess að það hafi nokkrar afleiðingar. Auðvitað kvarnast upp úr trúverðugleikanum þegar þetta er viðvarandi suð. Vísir hefur nú reynt að ná tali af þér í þrjá daga samfellt. Til að spyrja þig út í þessa ræðu, sem fólk var greinilega að velta fyrir sér. Það er það sem við gerum. Við náðum ekki sambandi við þig, nema í slitróttum sms-skeytum sem einkenndust af undanbrögðum. „Vísir heldur því síðan fram að ég hafi verið „slompuð” á Alþingi, það er líka rangt.“ Það er rangt að Vísir haldi því fram að þú hafir verið slompuð. Hrein og klár lygi. Þetta er bara spurning um að stjórnmálamenn svari fjölmiðlum, ekki bara þegar hentar, þeir eru að spyrja fyrir hönd þess sama almennings og þið eigið að vera að þjóna í ykkar störfum,“ segir Jakob.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sjálfstæðisflokkurinn kominn undir 19 prósent – Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa allir fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn kominn undir 19 prósent – Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa allir fylgi
Fréttir
Í gær

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið
Fréttir
Í gær

Bretar vilja gelda alla nauðgara og barnaníðinga með lyfjum – Tilraunaverkefni hafið í 20 fangelsum

Bretar vilja gelda alla nauðgara og barnaníðinga með lyfjum – Tilraunaverkefni hafið í 20 fangelsum