Foreldrar Sigurðar Kristófers McQuillan Óskarssonar, sem lést í fyrra, kærðu lögreglumanninn sem tilkynnti þeim andlátið til nefndar um eftirlit með lögreglu.
Sigurður lést 3. nóvember 2024 við æfingu í straumvatnsbjörgun í og við Tungufljót. Sigurður var nýlega orðinn 36 ára og formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ.
Sjá einnig: Formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ lést í Tungufljóti
Foreldrar hans Karin Agnesi McQuillan og Óskar Ágúst Sigurðsson segja í viðtali í Morgunblaðinu í dag að þau séu afar sár yfir því hvernig staðið var að málum. Þau hafa ekki frétt hver staða kæru þeirra er hjá nefndinni.
Þau segja margt hafa farið úrskeiðis eftir slysið og margir vitað af banaslysi sonarins á undan nánustu aðstandendum. Vilja þau vekja athygli á vinnubrögðunum í þeirri von að slíkt gerist ekki aftur og segja að koma þurfi í veg fyrir að aðrir þurfi að ganga í gegnum það sama og þau í sorgarferli.
„Ég heyrði í útvarpsfréttum klukkan 18.03 að maður hefði fallið í Tungufljót. Ég vissi að Siggi væri þar en við foreldrarnir höfðum bæði rætt við hann fyrr um daginn. Móðurinnsæið sagði mér að Siggi væri sá sem hefði lent í slysinu. Ég starfaði lengi sem hjúkrunarfræðingur og fór að hringja símtöl, til dæmis í bráðamóttökuna en var engu nær. Ég hringdi í unnustu Sigga [Hrefnu Ingibjörgu] og hún vissi ekki af þessu. Þegar hún [Hrefna] fór að spyrjast fyrir var henni sagt að lögreglan væri á leið til hennar,“ segir Karin. Hjónunum hafði ekki verið tilkynnt um andlát sonar þeirra, þegar fyrstu fréttir voru fluttar um að maður hefði fallið í Tungufljót.
Hjónin keyrðu að heimili sonar síns og unnustu hans í Mosfellsbæ, þar hitti Karin lögreglumann á bílastæðinu sem var einn á ferð, sendur úr Reykjavík. Hjónin voru skráð sem nánustu aðstandendur sonar síns og segist Karin hafa kynnt sig fyrir lögreglumanninum sem móðir Sigurðar en hann svarað að hann gæti ekkert sagt henni. Hélt hann inn á heimili Sigurðar og unnustu hans og var að skrifa niður kennitölur og tilkynna um andlát hans þegar Óskar faðir Sigurðar gekk inn í íbúðina. Karin segir að lögreglumaðurinn hafi spurt hvort Sigurður hafi notað áfengi eða eiturlyf. Karin segist hafa verið í áfalli og komist í mikið uppnám, lögreglumaðurinn hafi þá yfirgefið íbúðina og ekki hafi hann hringt í prest. Þau segja framkomu lögreglumannsins hafa verið þannig að hann sé maður sem ætti ekki að koma í hús þar sem sorgin ríkir.
Lík Sigurðar var flutt á líkhús á Selfossi og segjast hjónin hafa velt fyrir sér hvernig þau kæmust þangað til að sjá lík sonar síns. Þau hafi ekki verið í ástandi til að keyra sjálf að vetri til og illa gekk að ná í útfararstjórann. Sigurður var slysa- og líftryggður hjá tryggingafélagi en félagið fékk ekki fullnægjandi krufningarskýrslu til að bregðast við. Karin hafi sjálf farið í að afla gagna og upplýsinga úr krufningunni til að afhenda tryggingafélaginu.
Með því að lýsa reynslu sinni vonast hjónin til að aðrir í þeirra stöðu þurfi ekki að upplifa sömu reynslu af ferlinu eftir andlát ástvinar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.