fbpx
Miðvikudagur 21.maí 2025
Fréttir

Gunni Helga reiður og pirraður: Áttaði sig á því í gær að launin hans hefðu lækkað – „Ég skammast mín fyrir að hafa ekki vitað um þetta fyrr“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 21. maí 2025 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Já, ég er ógeðslega pirraður,“ segir Gunnar Helgason, leikari, leikstjóri og einn þekktasti barnabókahöfundur þjóðarinnar, í færslu á Facebook sem vakið hefur töluverða athygli.

Þar lýsir hann því hvernig laun eins hóps Íslendinga voru lækkuð með einu pennastriki um heil 25%.

„Hóps sem stjórnmálafólk segir á tyllidögum að skipti öllu máli fyrir framtíð íslenskunnar, framtíð barnanna okkar, framtíð þjóðarinnar. Það hefur ekkert birst í fjölmiðlum um þetta. Sem er skandall. Og við sem urðum fyrir lækkuninni vöknuðum upp við vondan draum í morgun þegar við sáum launalækkunina. Sem er skandall. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki vitað um þetta fyrr,“ segir hann.

38 milljóna sparnaður

Í færslu sinni vísar Gunnar til bókasafnssjóðs en framlög til sjóðsins námu 184,6 milljónum króna á fjárlögum ársins 2024. Í ár nema framlögin hins vegar 146 milljónum króna (sjá síðu 69). Í færslu sinni segir Gunnar að sjóðurinn hækki og lækki eins og barn á trampólíninu, allt eftir því hvernig skapi fjármálaráðherra er í hverju sinni.

„Þessi sjóður virkar svona: Í honum er ákveðin upphæð og öllum útlánum bókasafna er deilt í upphæðina í sjóðnum og þannig fá rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur greitt einu sinni á ári eftir því hvernig bækurnar þeirra lánast út. Og fjármálaráðherra(r) síðustu ríkisstjórnar ákváðu rétt si svona að skerða sjóðinn um heil 25%. Spöruðu heilar 38 milljónir sem bjargar fjárlagahallanum í eitt skipti fyrir öll,“ segir Gunnar í kaldhæðni.

Hann segir að á sama tíma hafi þessir ráðherra og flokkar þeirra mælt fyrir frumvarpi um bókmenntastefnu fyrir land og þjóð sem talað sé fjálglega um íslenska tungu, læsi, börnin okkar og barnabókahöfunda.

„Þar stendur þetta um okkur, greyin: Starfsumhverfi höfunda barna- og ungmennabóka verði styrkt sérstaklega, m.a. með því auknu fjármagni verði veitt í starfslaun eyrnamerkt þessum hópi höfunda. (Mjög fyndið … eða sorglegt að það sé málfræðivilla í frumvarpi um nýja Bókmenntastefnu) Þanebbleaþað,“ segir hann í færslunni.

Barnabókahöfundar finna meira fyrir lækkuninni

Hann segir svo að ástæðan fyrir því að hann nefnir barnabókahöfunda sérstaklega sé sú að þeir finna meira fyrir lækkuninni. Ástæðan sé sú að þeir fá lægri laun fyrir selt eintök en þeir sem skrifa fyrir fullorðna en sömu laun fyrir útlán á bókum.

„Þetta þýðir að útlánin og greiðslur úr Bókasafnssjóði skipta meira máli fyrir okkur barnabókahöfundana. Sum okkar reiða sig hreinlega á þessa greiðslu til að geta réttlætt það fyrir sjálfum sér, mökum sínum, börnum og foreldrum að þau séu að standa í þessu skrif-stússi,“ segir hann.

Hann nefnir svo að frumvarpið um bókmenntastefnu, sem enn er í meðförum þingsins, rúmu ári eftir að það kom fram, sé ekkert annað en „brandari, drasl, skeinipappír“ sem ekkert mark er takandi á.

„Ég heimta það núna!“

Hann merkir Loga Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, í færslu sinni og leggur til við hann fjögur atriði.

„1. Hendum þessu frumvarpi í ruslið þar sem það er engin alvara á bak við það.

2. Lokum bókasöfnunum. Það er öllum sama hvort sem er því það eru bara börn sem nota þetta mest. Þá þarf ríkið heldur ekki að vera með þennan fokdýra sjóð lengur.

3. Hættum að reyna að bjarga íslenskunni. Það er miklu auðveldara að skipta bara yfir í ensku.

4. Hættum að reyna að gera börnin læs. Það verður hvort sem er ekkert að lesa fyrir þau nema gamlar bækur þar sem það borgar sig ekki lengur að skrifa fyrir börn á Íslandi. Já, og kannski einhverjar þýddar.“

Og svo segir Gunnar að lokum að ef honum finnist þetta fáránlegar tillögur, sem þær vissulega séu, þá sé bara að hækkað sjóðinn strax og gera það afturvirkt.

„Það getur hvorki verið ásættanlegt né þolanlegt að lækka laun rithöfunda, myndhöfunda og þýðenda um 25%. Það bara getur ekki verið. Ég heimta að launin ekki bara verði þau sömu og í fyrra heldur fylgi verðlagi eins og ÖLL ÖNNUR LAUN Á ÞESSU LANDI! Og ég heimta það núna! Strax! Já, ég er ógeðslega pirraður.“

Hann endar svo færsluna á að spyrja Lilju Alfreðsdóttur, fyrrverandi menningarmálaráðherra, hvað hafi gerst og hver ákvað þetta. „Því ég veit það varst ekki þú? Geturðu hjálpað Loga við að laga þetta? Sigmundur Ernir Rúnarsson, þú líka! Strax í fyrramálið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

SAF mótmælir þrengingu að skammtímaleigu – Segja brunavarnir fyrirslátt og ríkið verði skaðabótaskylt

SAF mótmælir þrengingu að skammtímaleigu – Segja brunavarnir fyrirslátt og ríkið verði skaðabótaskylt
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Bakslag hjá Valgeiri Guðjónssyni – Fékk erfiðar fréttir á dögunum

Bakslag hjá Valgeiri Guðjónssyni – Fékk erfiðar fréttir á dögunum
Fréttir
Í gær

Mikill viðbúnaður vegna farþegaskips við Ísafjarðardjúp – Tvær þyrlur á vettvang

Mikill viðbúnaður vegna farþegaskips við Ísafjarðardjúp – Tvær þyrlur á vettvang
Fréttir
Í gær

Björn tjáir sig um stöðu Gyllta kattarins og hvort Degi sé um að kenna – „Eins og þegar ég hrasaði á gangstéttarhellu við ráðhúsið fyrir tveimur árum“

Björn tjáir sig um stöðu Gyllta kattarins og hvort Degi sé um að kenna – „Eins og þegar ég hrasaði á gangstéttarhellu við ráðhúsið fyrir tveimur árum“
Fréttir
Í gær

Trump er brjálaður út í fjölmiðilinn – „Ég aðvara þessa „drullusokka“ aftur“

Trump er brjálaður út í fjölmiðilinn – „Ég aðvara þessa „drullusokka“ aftur“
Fréttir
Í gær

Mannbjörg varð þegar bátur strandaði fyrir utan höfnina á Rifi í morgun

Mannbjörg varð þegar bátur strandaði fyrir utan höfnina á Rifi í morgun