fbpx
Föstudagur 16.maí 2025
Fréttir

„Ef það hefði farið mikið hærra væri ég ekki endilega hér. Á hverjum degi þakka ég fyrir að vera á lífi“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 16. maí 2025 10:30

Jóna í viðtali á RÚV árið 2024. MYnd: Skjáskot RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líf Jónu Elísabetar Ottesen viðburðastjórnanda gjörbreyttist 1. júní 2019 þegar hún lenti í skelfilegu bílslysi ásamt Uglu dóttur sinni. 

Mæðgurnar höfðu átt yndislega afmælishelgi fyrir norðan ásamt Steingrími barnsföður Jónu og voru að keyra heim, Laddi í græjunum og mæðgurnar sungu með. Á þjóðveginum var Jóna að taka fram úr þegar ökumaðurinn fyrir aftan hana ákvað að gera það líka og keyrði á bíl mæðgnanna.

„Það kemur svaka högg aftan á bílinn og ég fer að fara út af veginum. Það var hæsta öskur sem ég hef öskrað og svo man ég ekki meira fyrr en bíllinn er hálfur ofan á hálsinum á mér,“ segir Jóna í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.

Jóna fann að hún gat ekki hreyft líkamann og minnist þess að liggja í áfalli að hugsa um dóttur sína og hvort það væri í lagi með hana. Erlendur ferðamaður sem var læknir kom fyrstur að slysinu. Síðan kom hjúkrunarkona og loks hjón sem könnuðust við mæðgurnar og tóku dóttur Jónu inn í bílinn sinn á meðan verið var að koma Jónu undan bifreiðinni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var stödd á Siglufirði í tilefni sjómannadagsins og því fljót á svæðið. Einn þeirra sem henni fylgdi var kraftlyftingamaður sem gat lyft bílnum og haldið á meðan Jóna var tekin undan honum. Mæðgurnar fóru með þyrlunni á Landspítalann þar sem skurðarteymið hafði nýverið klárað aðgerð svo skurðstofan var tilbúin. Í ljós kom að mæna Jónu var sködduð og hún fór í aðgerð og svo í öndunarvél sem hún var í um fjórar vikur. Hún reyndist blessunarlega ekki hafa fengið heilaskaða, en það munaði litlu. 

„Ég brotna á fimmta og sjötta hálslið en það blæðir í fjórða hálslið. Ef það hefði farið mikið hærra væri ég ekki endilega hér. Á hverjum degi þakka ég fyrir að vera á lífi.“

Dóttir Jónu slasaðist ekki nema lítillega og náði sér fljótlega að fullu.

Fyrsta stóra áfallið þegar þriggja ára bróðir hennar lést

Þegar Jóna var sextán ára lentu móðir hennar og þriggja ára bróðir hennar, Marinó Kristinn, í bílslysi. Jóna kom heim eitt kvöld úr dansi og fékk slæma tilfinningu yfir að móðir hennar og bróðir væru ekki heima. „Mamma er að skilja við barnsföður sinn og það gengur á ýmsu. Mér fannst þetta óþægileg tilfinning, fer niður í herbergið mitt með svakalega ónotatilfinningu.“

Jóna var vakin upp við að sjúkrahússprestur og lögregla tilkynna henni að móðir hennar og bróðir hafi lent í bílslysi. Bróðirinn lést, móðir hennar og faðir drengsins slösuðust mikið. „Þetta gerist í október og er þegar maður er að keyra frá Mosó á Kjalarnes og þar er bíll sem keyrir á móti á brú. Það er mín fyrsta hrikalegasta reynsla í lífinu. Fyrsta stóra áfallið.“

Jóna og eldri systir hennar sameinuðust í sorginni og móðir hennar fór í mikla endurhæfingu. „Við fórum til sálfræðings sem aðeins tók utan um okkur en svo er maður einn með þessa reynslu. Margt hefði ég viljað gera öðruvísi þegar ég lít til baka en ég þurfti bara að fara í gegnum þetta.“

Enn að vinna úr bílslysinu fyrir sex árum

Jóna er enn að fara í gegnum slysið sem átti sér stað fyrir sex árum.

„Ég ætla að vera hreinskilin og segja að það hafi alls ekki gengið vel fyrst eftir slysið. Þó svo ég hafi verið með allt þetta fólk og þennan hvata, dóttur mína þar fremsta í flokki, er þetta svo mikið áfall. Á hverjum degi átta ég mig á öllu því sem ég get ekki gert.“

Hún lamaðist í fótum, getur hreyft hendur en ekki úlnlið og fingur. „Guð hvað ég væri þakklát fyrir að geta greitt dóttur minni um hárið og fundið þegar ég strýk henni á bakinu. Það er svo mikil tilfinning í höndunum. Að geta knúsað fast og þurrkað á henni tárin.“

Í sumar ætlar hún til Spánar í endurhæfingu í Madrid og hún getur vart beðið eftir því, að fá tækifæri til að styrkjast enn meira.

Er rosalega hamingjusöm

Jóna lærði mannfræði í háskóla og lokaverkefnið snerist um hvernig hægt væri að gefa börnum rödd til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Jóna fór síðan í hagnýta menningarmiðlun í Háskóla Íslands og lokaverkefnið þar var barnahátíð á Klambratúni sem hún skipulagði með góðum hópi fólks. Viðtökurnar létu alls ekki á sér standa. „Þarna kom hópur af fjölskyldufólki og það voru allir svo þakklátir. Það mættu allir þó það væri rigning í kortunum og á þessari litlu hátíð náðu mín skilaboð að komast til skila, að hafa svona afslappaða og notalega stemningu þannig að foreldrar geti líka chillað, talað saman, börnin leikið sér.“

Þegar hún slasaðist var einmitt verið að undirbúa fjórðu hátíðina, árið 2019. Hátíðin var haldin og systir hennar hringdi í hana á Facetime og gekk um hátíðarsvæðið til að sýna Jónu. Í ár verður hátíðin haldin á Víðistaðatúni og mun standa yfir í tvo daga. 

Þegar Jóna er spurð hvort hún sé hamingjusöm brosir hún. „Ég er rosalega hamingjusöm. Þegar maður finnur loksins tilgang og gleði, hefur eitthvað að hlakka til, það er nóg til að maður sé ekki stanslaust að hugsa hvað lífið er ömurlegt. Ég get farið til vinstri og haft það ömurlegt, en reyni að fara til hægri og vera happy. Ég gef mér líka tíma til að vera leið og brjáluð og skamma mig ekki fyrir það. Við eigum öll okkar daga og það má tuða pínu en daginn eftir er maður syngjandi glaður og hress. Maður verður að muna að þetta er upp og niður.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Boðar grundvallarbreytingar á umgjörð elsta ríkisútvarps heims

Boðar grundvallarbreytingar á umgjörð elsta ríkisútvarps heims
Fréttir
Í gær

Framlag ríkisins til umdeilds listaverks hefur hækkað um 10 milljónir á einu ári

Framlag ríkisins til umdeilds listaverks hefur hækkað um 10 milljónir á einu ári
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja fjármál Kópavogsbæjar vera í uppnámi

Segja fjármál Kópavogsbæjar vera í uppnámi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjötug kona varð fyrir árás og eftirför unglinga í Kópavogi – „Mér fannst þetta skuggalegt“

Sjötug kona varð fyrir árás og eftirför unglinga í Kópavogi – „Mér fannst þetta skuggalegt“