Á fundi bæjarstjórnar í Kópavogi í gær var ársreikningur bæjarins fyrir síðasta ár samþykktur. Minnihlutinn lýsti því hins vegar yfir á fundinum að uppnám væri í fjárhag bæjarins fyrir síðasta ár þegar kæmi að tekjuhliðinni þar sem sala á byggingarrétti á fjölda lóða væri í uppnámi vegna þess að úthlutun lóðanna hefði verið ógilt af innviðaráðuneytinu. Meirihluti bæjarstjórnar svaraði því ekki efnislega í bókun sinni en einblíndi þess í stað á endurtekna gagnrýni minnihlutans á að bæjarráði hefði ekki verið haldið upplýstu um að úthlutunin hefði verið kærð.
Eins og DV hefur greint frá ógilti innviðaráðuneytið úthlutun lóðanna að Rofahvarfi 2-36 og 1-21 og þar með sölu byggingarréttar á þeim lóðum einkum á þeim grundvelli að Kópavogsbær hefði brotið gegn eiginn úthlutunarskilmálum. Meirihluti bæjarráðs hefur samþykkt að höfða mál til að fá úrskurðinum hnekkt en minnihlutinn gagnrýndi að hafa aldrei verið upplýstur um það að úthlutunin hefði verið kærð þó það hafi verið gert fyrir rúmu ári.
Í bókun minnihlutans, Sanfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vina Kópavogs, á fundi bæjarstjórnar var síðan minnt á að þessi sala og úthlutun sem hefðu verið ógilt hefði skilað hárri fjárhæð í bæjarsjóð:
„Kópavogsbær er í miklum vanda. Tekjuhlið ársins 2024, 2.7 milljarðar króna fyrir sölu byggingarréttar í Roðahvarfi, er í uppnámi. Í úrskurði innviðaráðuneytisins frá 2. maí sl. er niðurstaðan sú að ákvörðun Kópavogsbæjar um úthlutun lóða í Roðahvarfi sé haldin svo verulegum annmarka að óhjákvæmilegt sé að fella ákvörðunina úr gildi í heild. Málsmeðferð hafi brotið í bága við jafnræði bjóðenda og hvorki verið í samræmi við jafnræðisreglu 11.gr. stjórnsýslulaga né réttmætisreglu stjórnsýsluréttar.“
Minnihlutinn gagnrýndi síðan enn á ný að hafa aldrei verið upplýstur um að úthlutunin hefði verið kærð fyrr en að innviðaráðuneytið kvað upp sinn úrskurð í málinu. Í bókun minnihlutans segir að í tillögu til bæjarráðs um úthlutun lóðanna í júní 2024 hafi hvergi komið fram að kærendur hefðu gert formlega athugasemd við málsmeðferðina fyrir lok maí 2024. Í tillögu til bæjarráðs um að heimila veðsetningu á lóðunum síðar í þessum sama mánuði, júní 2024, hafi sérstaklega verið tekið fram að engir meinbugir væru á að heimila veðsetningu. Andmæli þeirra sem töldu brotið á rétti sínum hafi aldrei verið kynnt í bæjarráði og bæjarráð ekki upplýst um kæruna til ráðuneytisins fyrr en úrskurður lá fyrir. Segir því næst í bókuninni:
„Ákvarðanir stjórnsýslunnar um að gera lóðarleigusamninga og innheimta byggingarréttargjöld meðan kæran var óútkljáð í ráðuneytinu er dýrkeypt. Þessar ákvarðanir gera stöðu bæjarins og nýja ákvörðun í málinu afar flókna. Þær voru ekkert ræddar við bæjarráð. Við vísum allri ábyrgð af þessari málsmeðferð á bæjarstjóra. Það er framkvæmdastjóra sveitarfélagsins að sjá til þess að bæjarráði sé kleift að sinna hlutverki sínu sem framkvæmdastjórn bæjarins. Það er alls óheimilt að halda frá bæjarráði þáttum sem lúta að hlutverki þess.“
Í bókun meirihluta bæjarstjórnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, var orðum minnihlutans um að tekjuhlið fjármála bæjarins væri í uppnámi ekki svarað en þess í stað lögð áhersla á það mat meirihlutans, með vísan til álits lögfræðinga, að úrskurðurinn stæðist ekki skoðun.
Segir í bókuninni að niðurstaðan hafi komið verulega á óvart þar sem ráðuneytið hafi áður hafnað beiðni um að fresta réttaráhrifum vegna kærunnar. Meirihlutinn fylgi áliti utanaðkomandi lögfræðiráðgjafa sem telj sterk rök hníga til þess að úrskurður ráðuneytisins sé haldinn verulegum annmörkum bæði að formi og efni til. Því hafi bæjarstjóra verið falið að hefja undirbúning að málsókn fyrir héraðsdómi til að fá úrskurðinum hnekkt. Meirihlutinn gerir þar að auki alvarlegar athugasemdir við að málsmeðferðin hafi tekið tæpt ár hjá ráðuneytinu, sér í lagi í ljósi aðkallandi stöðu á húsnæðismarkaði.
Þegar kemur að gagnrýni minnihlutans á að aldrei hafi verið upplýst um kæruna í bæjarráði fyrr en úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp segir meirihlutinn í bókun sinni að kæran hafi ekki borist fyrr en eftir að ákvörðun um úthlutun hafi verið tekin og hún hafi heldur ekki legið fyrir þegar bæjarráð samþykkti veðsetningu. Í ljósi bókunar minnihlutans sé ástæða til að árétta að það hafi ekki verið venjan að tilkynna sérstaklega um allar kærur sem berist fyrr en úrskurður liggur fyrir. Því hafi ekki verið vikið frá neinum vinnureglum með því að upplýsa ekki um kæruna í þessu tilviki.
Segir að lokum í bókun meirihlutans að varhugavert sé að tjá sig efnislega um málið þegar það sé á þessu viðkvæma stigi í undirbúningi dómsmáls enda sé hlutverk kjörinna fulltrúa að standa vörð um hagsmuni Kópavogs.