Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá því í tilkynningu á Facebook að nýlega hafi þurft að leggja hald á tvo snáka sem voru haldnir sem gæludýr í heimahúsi. Segir í tilkynningunni að aðeins ein leið hafi verið fær í stöðunni:
„Það er ýmislegt sem getur komið upp á vaktinni og lögreglumenn þurfa að vera við öllu búnir. Að eiga við snáka er ekki daglegur viðburður, en gerist endrum og eins. Þessir tveir fundust í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu og voru haldlagðir, en hér er um að ræða brot á lögum um innflutning dýra. Í framhaldinu voru gerðar viðeigandi ráðstafanir, en í því felst að lóga og farga dýrum sem þessum.“
Færslan fær misjafnar undirtektir í athugasemdum og sumir telja tíma til komin að leyfa slík dýr á Íslandi:
„Hér í Noregi eru snákar og slöngur af ýmsu tagi, vinsæl og lögleg gæludýr. Ég vona að Ísland geti nú skriðið útúr þessum höftum einhverntímann. Gott og gaman að hafa svona gæludýra fjölmenningu.“