
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á algengum jólavörum í átta verslunum í síðustu viku en áður hafði eftirlitið birt verðkönnun á jólakjöti.
Í niðurstöðum eftirlitsins sem sendar voru á fjölmiðla kemur fram að verðmunur milli vara og verslana getur verið mjög breytilegur. Þó verðmunur kunni að vera lítill í krónum á smáum einingum, getur oft verið um töluverðan hlutfallslegan mun að ræða og oft um miklar fjárhæðir að ræða þegar gerð eru stór innkaup fyrir jólin. Verð voru könnuð í Prís, Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Fjarðarkaup, Kjörbúðinni og Extra.
Samkvæmt mælingum verðlagseftirlitsins í desember mælist verðlag lægst í Prís. Er þá miðað við meðalverðmun á vörum sem fáanlegar eru í fleiri en einni verslun. Verðlag í Bónus og Krónunni liggur litlu ofar, en að jafnaði er verð í þeim verslunum um 2-3% hærra en þar sem varan finnst á lægsta verðinu.
Vinsælar vörur eru ekki endilega fáanlegar í öllum verslunum og verðbreytingar geta verið tíðar á þessum árstíma. Til dæmis hófst sala á hátíðarís frá Emmessís í Krónunni á verðinu 1.549 kr. í nóvemberbyrjun, en hefur síðan lækkað í 1.180 kr. eða um tæpan fjórðung. Einnig er algengt að munur sé á stærðum pakkninga bæði innan og milli verslana og því getur verið gagnlegt að gera samanburð á kíló- og lítraverði ætli neytendur sér að gera hagkvæm innkaup um jólin. Neytendum er því bent á að hægt er að nota Nappið til samanburðar eða vöruleit á Verdlagseftirlit.is þar sem öll gögn og nýjustu verð eru aðgengileg.
Verð á völdum hátíðarvörum má sjá í meðfylgjandi töflu
Afar mikill munur getur verið á verði eftir því hvaða verslun og hvaða pakkning er valin. Hálfs lítra Pepsi í plasti kostaði til dæmis meira í Hagkaup (279 kr.) heldur en tveggja lítra Pepsi í Prís (259 kr.). Jafnvel sami 1 kg. kassinn af Nóa konfekti í lausu kostaði 1.100 kr. minna í Prís (5.399 kr.) en í Hagkaup (6.499 kr.).
Mandarínur í lausu fengust á 485 kr. kílóið í Prís, en kílóverð á klementínum var frá 611 kr. í Krónunni upp í 699 kr. í Hagkaup.
Lægsta kílóverð á laufabrauði var 2.653 kr. á ósteiktu laufabrauði frá Ömmubakstri í Prís. Ósteikt laufabrauð frá Ömmubakstri var ódýrara en ósteikt laufabrauð frá Kristjáns bakaríi í öllum fjórum verslunum þar sem bæði fengust þ.e. í Prís, Bónus, Krónunni og Hagkaup.
Steikt laufabrauð frá Ömmubakstri var einnig ódýrara en steikt laufabrauð frá Kristjáns bakaríi í öllum verslunum þar sem bæði fengust þ.e. í Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup og Fjarðarkaup. Var munurinn á Ömmubaksturs og Kristjáns steiktu laufabrauði allt frá 7% í Hagkaup upp í 18% í Fjarðarkaup þegar kílóverð eru borin saman.
Vegan laufabrauð frá Ömmubakstri var ódýrast í Bónus, en kílóverðið á því þar (7.539 kr.) var 70% hærra en á ódýrasta steikta laufabrauðinu, sem var Ódýrt laufabrauð í Krónunni (4.410 kr./kg).
Fjarðarkaup buðu upp á lægsta kílóverð á Lindu konfekti, en 900 gr. kassi kostaði 3.998 kr. þar. Kassinn kostaði 4.289 kr. í Bónus en 4.999 kr. í Hagkaup. Kílóverðið á Lindu konfekti var nokkru lægra en á Nóa konfekti, sem var lægst 5.399 kr./kg í Prís fyrir 1kg af Nóa konfekti í lausu.
Kílóverð á 900gr kassa frá Lindu var lægra en kílóverð 1 kg. Nóa konfektkassans í Prís í öllum verslunum nema Hagkaup, þar sem það var 5.554kr.
Hæsta kílóverð á Nóa konfekti í Bónus var á 135 gr. kassa, 14.995 kr./kg. Hæsta kílóverð í Bónus á Lindu konfekti var aftur á móti á 220 gr. kassa, 8.172 kr./kg. Verðbil á konfekti getur því verið sérlega breitt eftir því hvaða kassi er keyptur og í hvaða verslun.
Nýjasta samanburð á kílóverði konfekts og á öðrum vörum má finna á heimasíðu verðlagseftirlitsins. Þar má líka sjá að 900 gr. af Quality Street molum kostaði frá 1.799 kr. í Prís upp í 2.299 kr. í Nettó.
Í bakstur og matreiðsluna
Ódýrasta smjörið fæst í Prís, 798 kr. fyrir 500 gr. af smjöri sem jafnframt var lægsta fáanlega kílóverð á smjöri. Verð á smjöri í Kjörbúðinni og Extra var einungis krónu dýrara. Í Bónus og Fjarðarkaupum kostaði sama eining 819 kr. og verðið í Krónunni var krónu dýrara, 820 kr. Smjörið var nokkuð dýrara í Hagkaupum, á 909 kr.
Rjóminn er einnig ódýrastur í Prís þar sem 500 ml. af 36% rjóma fæst á 749 kr. Verðið í Bónus (768 kr.) og Krónunni (769 kr.) liggur litlu ofar. Neytendum er þó bent á að hægt er að finna lægra lítraverð á rjóma í eins lítra fernu og getur munað um 100 krónum á lítrann á ódýrasta verði. Eins líters rjómi kostar 1.389 krónur í Prís borið saman við 1.395 krónur í Bónus og 1.396 kr. í Krónunni.
Suðusúkkulaði í baksturinn var einnig á lægsta verðinu í Prís ef borið er saman verð á Konsúm suðusúkkulaði frá Nóa-Síríus (300 gr.) og Lindu suðusúkkulaði (200 gr.). Lægsta kílóverðið á suðusúkkulaði er hins vegar að finna í Bónus, á Bónus suðusúkkulaði (2.330 kr.) sem er 5 krónum ódýrara en Lindu suðusúkkulaðið í Prís (2.335 kr.)
Jólasíldin ódýrust á tilboði í Nettó
Jólasíldin frá ORA var ódýrust í Nettó (899 kr.) þegar Verðlagseftirlitið fór á vettvang. Vert er að taka fram að síldin var auglýst á tilboði í Nettó þegar verðtaka fór fram en almennt listaverð er 1.099 kr. Alls munaði fjögur hundruð krónum á lægsta og hæsta verði en jólasíldin var dýrust í Kjörbúðinni og Extra, á 1.299 kr. Einungis munaði krónu á á verðum í Bónus (998 kr.) og Krónunni (999 kr.).
ORA hátíðarsíld var einnig ódýrust í Nettó (742 kr.) þar sem hún var á tilboði en þar á eftir röðuðu sér Krónan (820 kr.), Hagkaup (949 kr.), og Fjarðarkaup (1.058 kr.). Dýrust var hátíðarsíldin í Kjörbúðinni á 1.099 kr. Marineruð síld frá ORA var ódýrust í Krónunni (598 kr.) en fyrir þá sem vilja erlenda síld mátti einnig finna síld frá Klädesholmen í nokkrum verslunum. Lauksíldin frá Klädesholmen var ódýrust í Fjarðarkaupum og kostaði 412 kr.
Verðsamanburður getur verið vandmeðfarinn. Marineruð ORA síld í 590gr krukku kostaði 829 kr. í Bónus en Gestus marineruð síld í 600 gr. krukku kostaði 699 kr. í Krónunni. Munurinn er 19%, en munurinn á kílóverði varanna tveggja er 21%. Hins vegar er þurrvigt síldarinnar 300 gr. hjá ORA, en 250 gr. hjá Gestus. Ef bara sú vigt er skoðuð er kílóverð síldarinnar lægra á ORA síldinni í Bónus, 2.763 kr./kg á móti 2.796 kr./kg á Gestus-síldinni í Krónunni.
Meðlætið
Nokkuð lítill verðmunur var á grænum og gulum baunum frá ORA, 420 gr., þegar horft er á krónutölumun milli verslana. Hlutfallslegur munur gat þó numið allt að fjórðungi milli lægsta og hæsta verðs. Lægsta verðið á grænum baunum var í Prís (238 kr.) en þar á eftir fylgdu Bónus (247 kr.), Krónan (248 kr.), Nettó (249 kr.) og Fjarðarkaup (259 kr.). Á gulum baunum var lægsta verðið hins vegar í Kjörbúðinni (290 kr.) og Extra (290 kr.) en þar á eftir fylgdu Bónus (297 kr.) og Krónan (298 kr.).
Hið sígilda rauðkál frá Beauvais var ódýrast á 379 kr. í Bónus en hæsta verðið var að finna í Extra þar sem það kostaði yfir 40% meira (529 kr.). Rauðkálið fannst einnig í Krónunni (380 kr.), Fjarðarkaupum (389 kr.), Nettó (419 kr.) og Hagkaupum (449 kr.)
Á meðfylgjandi súluriti má sjá verð á völdu meðlæti
Gosið
Mikið úrval er að finna af drykkjarvörum á veisluborðið þar sem mikill munur getur verið á stærðum pakkninga. Á vef verðlagseftirlitsins má finna nýjustu verð yfir einstakar vörur en einnig yfir ódýrasta lítraverð.
Verð á malti og appelsín í 500 ml. dós var lægst í Prís af þeim verslunum sem verðlagseftirlitið heimsótti. Það er jafnframt ódýrasta fáanlega lítraverð á þessum sígilda jóladrykk. Dósin var á 269 kr. Prís, borið saman við 277 kr. í Bónus, 278 kr. Krónunni og 279 kr. í Fjarðarkaupum. Allt að þriðjungsmunur var á lægsta og hæsta verði á malti og appelsíni í dós en hæsta verðið var að finna í Kjörbúðinni og Extra.
Ódýrasta flaska af kóki í gleri, 330 ml. var í Bónus á 225 krónur en hæsta verðið var 279 krónur í Hagkaup og Kjörbúðinni. Sé ætlunin að finna lægsta lítraverðið er það að finna í kaupum á 4 x 2 ltr kókflöskum í Prís (144 kr./ltr).
Verðbreytingar milli ára
Jólavörur hafa sumar hverjar hækkað verulega frá desember í fyrra.
Malt og Appelsín í dós kostaði 199 kr. í Extra í fyrra en kostar nú 349 kr., 75% hækkun.
Malt og Appelsín í gleri hækkar úr 209 kr. í 247 kr. í Bónus, eða um 18%. Sama gildir um Krónuna, þar sem verðið fór úr 210 kr. í 248 kr.
Freyju 46% suðusúkkulaði kostaði 359 kr. jólin 2023 í Bónus, 395 kr. í fyrra (10% hærra en árið áður), en kostar nú 609 kr. (54% hærra en í fyrra og 70% hærra en 2023).
Nóa konsúm suðusúkkulaði, 300 gr., hækkar um 35% í Prís, úr 679 kr. í 919 kr.
Aðrar vörur lækka þó.
Euroshopper extra virgin ólífuolía 1 ltr. lækkar í Hagkaup og Bónus um 24% milli ára.
Pink Lady epli, fjögur í pakka, lækka í Bónus úr 598 kr. í 498 kr., 17% lækkun.
500gr af bláberjum lækka í Krónunni um 16% og rauð vínber í boxi um 14%.
Gestus sinnepssíld í bitum lækkar um 10% í Krónunni.
Fyrirvari frá Verðlagseftirliti ASÍ
Könnunin var gerð í síðustu viku og voru verð á matvöru borin saman í Bónus, Krónunni, Prís, Nettó, Fjarðarkaupum, Hagkaupum, Kjörbúðinni og Extra. Í verðsamanburði er miðað við hilluverð sem neytandi hefur upplýsingar um í versluninni. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar og geta neytendur nálgast nýjustu verð verðlagseftirlitsins í Nappinu eða á verdlagseftirlit.is
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.