

Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson hefur hafið störf sem viðskiptastjóri hjá tæknifyrirtækinu OK. Hann hefur yfir 20 ára reynslu í sölu og viðskiptastýringu á notendabúnaði og miðlægum lausnum. Vilhjálmur starfaði lengst af hjá Nýherja og Origo þar sem hann bar ábyrgð á sölu og þjónustu til fyrirtækja og stofnana. Kemur þetta fram í tilkynningu.
Meginhlutverk Vilhjálms hjá OK verður að styrkja sambönd við núverandi viðskiptavini, efla þjónustu og upplifun þeirra og greina ný tækifæri til framtíðar.
„Það er mikill fengur fyrir OK að fá Vilhjálm til liðs við okkur. Hann hefur mikla reynslu, góða þjónustulund og djúpa þekkingu á þeim tæknilausnum sem við bjóðum. Hann hefur ekki einungis sterkan bakgrunn í sölu og þjónustu á notendabúnaði, heldur einnig víðtæka þekkingu á miðlægum búnaði og skyldum lausnum,“ segir Gísli Þorsteinsson, forstöðumaður notendalausna hjá OK.
OK er lausnamiðað tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstrarþjónustu, notendalausnum, öryggislausnum og hugbúnaðarþjónustu, meðal annars með lausnum og búnaði frá HP, Yealink, Poly, Samsung og Jabra. Um 150 manns starfa hjá fyrirtækinu.