

Ökumaður furðar sig á sekt sem hann fékk á Ingólfsstræti í miðbæ Reykjavíkur. Segist hann ekki hafa áttað sig á að greiða þyrfti fyrir stæði þegar hann sæti í bílnum. Vekur viðkomandi athygli á í Facebook-hópnum Vertu á verði – eftirlit með verðlagi.
„Ég skutlaði unglingnum mínum í verslun við Ingólfsstræti og hinkraði eftir honum í bílnum á bílastæði fyrir utan. Á meðan ég beið fékk ég tilkynningu frá Bílastæðasjóði Reykjavíkur um álagningu stöðvunarbrotagjalds, reikning upp á 4.500 kr.Ég bara fattaði ekki að það þyrfti að greiða í bílastæði þó maður sitji við stýrið og sé að hinkra eftir öðrum. Ég greiddi gjaldið en velti fyrir mér hvort allir nema ég séu með þetta á hreinu?“
„Ég hélt að allir sem „komnir eru til vits og ára“ vissu að engu skiptir hvort bíll er mannlaus eða einhver i honum,“ segir kona nokkur.
Karlmaður bendir á: „Um leið og bíllinn er stöðvaður í lengri tíma en tekur af ferma/afferma þá telst honum vera lagt. Og ef honum er lagt í gjaldskylt stæði þarf að greiða.“
Nokkrir benda á það augljósa, að viðkomandi er lagður í stæði sem enginn annar getur notað á meðan og því eigi að greiða:
„En þú varst að taka frá stæði, af hverju áttu ekki að borga fyrir það, bendir einn á. Og annar tekur í sama streng: „Einmitt…alveg sama hvort einhver sé í bílnum eða ekki, þá ertu að taka frá stæði sem aðrir hefðu mögulega lagt í og yfirgefið sinn bíl.“
„Ég hef nú alltaf tekið því þannig að ef ég er að nota stæðið þá eigi maður að borga fyrir það hvort sem ég sit inn í bílnum eða ekki. Enginn annar notar stæðið á meðan.“
„Þetta er mjög einfalt, þú ert lögð í stæði hvort sem kveikt er á bílnum eður ey. Því þú er þar með búinn að teppa það pláss svo enginn annar greiðandi bíleigandi geti notað. Þetta kallast heilbrigð skinsemi.“
Konu nokkurri finnst gjaldið ansi hátt og hvetur til að spyrjast fyrir um það:
„Þó svo að þú sitjir í bílnum þarf að borga ef lagt er á gjaldskyldusvæði. Mér finnst hins vegar verðið alveg ótrúlega hátt, þar sem þú hefur væntanlega ekki verið í marga klukkutíma þarna fyrir utan og á mörgum gjaldskyldusvæðum er ekki rukkað fyrr en fyrsta korterið er búið. Þannig að í þínum sporum myndi ég spyrjast fyrir hvers vegna reikningurinn er svona hár? Nema náttúrulega að þú hafir beðið í einhverja 3 klukkustundir eða meira þarna fyrir utan.“