

Guðlaugur er í viðtali á forsíðu Morgunblaðsins vegna málsins og gagnrýnir hann sérstaklega að umræddri hækkun hafi verið haldið frá fjárlaganefnd og almenningi.
„Það er augljóst að fyrirætlun ríkisstjórnarinnar er að hækka alla þá skatta sem hún mögulega getur, en hún vill ekki segja frá því. Það er hins vegar þannig í lýðræðisþjóðfélagi að stjórnvöld eiga að upplýsa um það þegar þau hækka skatta,“ segir Guðlaugur við Morgunblaðið.
Bendir hann á að minnihluti nefndarinnar hafi þráspurt hvernig það megi vera að tekjur af erfðafjárskatti eigi að hækka um 2,1 milljarð á milli umræðna í þinginu.
„Það er augljóst að ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga munu margir ekki hafa efni á því að þiggja arf. Þeir munu þurfa að selja eignir sem þeir erfa og munu í þokkabót þurfa að greiða 22% skatt ofan á þann 10% skatt sem erfðafjárskatturinn er. Þetta eru allt saman skattar af eignum sem arfláti hefur þegar greitt skatt af,“ segir Guðlaugur Þór við Morgunblaðið í dag.