
Lögmaður sem losnaði úr gæsluvarðhaldi og einangrun á Hólmsheiði á föstudag eftr rúmlega hálfsmánaðar prísund vísar ásökunum lögreglu á sig á bug og segir þær fullkomlega fjarstæðukenndar.
Hann segist í viðtali við DV ekki vera tilbúinn að stíga fram undir nafni strax en muni gera það síðar sem og að tjá sig nánar um málið. Hann var þó til í að fara stuttlega yfir það.
„Ég er bara andlega í molum og er kominn á lyf. Ég var bara sambandi við fjölskylduna um helgina og í dag er fyrsti vinnudagur, ég er bara í björgunaraðgerðum. Einangrunarvist er pyntingar.“
Í fjölmiðlum hefur lögreglan á Norðurlandi eystra bendlað lögmanninn við ólöglegan innflutning á fólki, peningaþvætti og fíkniefnasölu. „Já og bara ræktun fíkniefna,“ bætir hann sjálfur við þessa upptalningu og segist vera tengdur við Raufarhafnarmáið svokallaða en það varðar mikla ræktun fíkniefna.
Ásakanir segir hann vera fráleitar og hann fer þungum orðum um Eyþór Þorbergs, aðstoðarasaksóknara lögreglunnar á Norðulandi eystra, fyrir framgöngu hans í málinu.
„Hann er hrotti. Og hann er þekktur meðal lögmanna sem hrotti hjá lögreglunni. Þannig var framkoma hans gagnvart mér líka. Hann hélt því til dæmis fram til að framlengja gæsluvarðhaldið að ég hefði verið ósamstarfsfús og neitað að svara spurningum lögreglu. Það er bara lygi.“
Lögmaðurinn segir að bankareikningar hans hafi verið kyrrsettir á uppgjörsdegi virðisaukaskatts. „Þetta var bara gert til að valda mér meira tjóni og hefna sín,“ segir hann. Segir hann saksóknara hafa logið að dómara til að knýja fram framlengingar á gæsluvarðhaldi hans.
Í yfirheyrslum var hann spurður samals fjögurra spurningar sem vörðuðu trúnaðarsamband við skjólstæðinga hans og hann gat ekki svarað þeim nema þeir fengju dómsúrskurð fyrir hverri spurningu. Þetta sé ranglega túlkað sem skortur á samvinnufúsleika.
„Í upphafi málsins spurðu þeir mig hvort þeir fengju lykilorðin á tölvurnar og símana mína. Ég svaraði þeim að ég mætti ekki hleypa þeim inn á þessi tæki vegna siðareglna lögmanna nema með dómsúrskurði. Þeir fengu dómsúrskurð 25. nóvember, á þriðjudegi, en þeir hringja ekki í mig til að fá þessi lykilorð fyrr en á mánudeginum þegar tæpar tvær vikur voru liðnar. Þeir fengu síðan aðra framlengingu, þrjá daga en báðu um viku, á þeim grundvelli að þeir voru ekki búnir að tryggja öll gögn, af því þeir fengu lykilorðin svo seint.“
Segir hann þetta sýna að gæsluvarðhaldstíminn yfir honum hafi verið mjög illa nýttur og liggur undir að hann hafi setið óþarflega lengi í gæsluvarðhaldi fyrir svo utan að hann telur að hann hafi aldrei átt að fara í gæsluvarðhald.
„Þeir byggðu allar sínar kröfur, um hlerun, húsleit, eftirfylgd, gæsluvarðhald og einangrun á því að ég væri samverkamaður eða hlutdeildarmaður í þessu Raufarhafnarmáli. Það var fjarstæðukennt og það var bara vegna þess að tveir sakborningar í því máli voru skjólstæðingar mínir. Ég var verjandi annars þeirra í málinu og hinn var skjólstæðingur minn frá fyrri tíð.“
„Ég tel að lögreglan sé að reyna að nota mig og komast í vinnugögnin mín af því ég er bara mjög vinsæll meðal Albananna. Ég held því að þeir séu að reyna að komast í vinnugögnin mín svo þeir geti fundið höfuðpaurana í þessu Raufarhafnarmáli.“
Hann ítrekar í lokin að hann muni stíga fram undir nafni síðar og gera hreint fyrir sínum dyrum.