fbpx
Þriðjudagur 02.desember 2025
Fréttir

Sagt upp í fæðingarorlofi vegna einkavæðingar

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 2. desember 2025 20:30

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið á rétti konu sem var sagt upp störfum sem matráður á leikskóla á meðan hún var í fæðingarorlofi. Uppgefnar ástæður voru skipulagsbreytingar en mötuneytinu á leikskólanum var útvistað til einkaaðila.

Konan hélt því fram að henni hafi verið sagt upp vegna þess að hún hafi farið í fæðingarorlof. Efling stéttarfélag lagði fram kæruna fyrir hennar hönd og þar kom fram að konunni hafi verið mismunað á grundvelli kyns hennar og þar með hafi borgin brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Konan tilkynnti í maí 2022 að hún myndi fara í fæðingarorlof í janúar 2023 en hún fór í veikindaleyfi í október 2022 og fór síðan í fæðingarorlofið á tilsettum tíma. Til stóð að hún kæmi aftur til starfa í janúar 2024. Henni var hins vegar sagt upp störfum í september 2023. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að ástæða uppsagnarinnar væri skipulagsbreytingar sem fælust í því að mötuneytisþjónustu leikskólans yrði útvistað til einkaaðila.

Í kæru konunnar kom fram að samkvæmt áðurnefndum lögum sé óheimilt að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir. Borgin hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn sem sýnt hafi fram á að önnur sjónarmið en fæðingarorlof konunnar hafi ráðið för við uppsögn hennar og henni hafi því verið mismunað á grundvelli kyns.

Bara hún

Fram kom að engum öðrum starfsmanni hafi verið sagt upp vegna umræddra skipulagsbreytinga. Í skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni hafi verið byggt á því að mötuneytisþjónustu hefði verið útvistað til fyrirtækis sem sérhæfi sig í framleiðslu og framreiðslu á mat fyrir börn í leik- og grunnskólum. Engan frekari rökstuðning hafi verið að finna fyrir ákvörðuninni. Ekkert hafi verið minnst á að hvaða markmiði hafi verið stefnt með þessum skipulagsbreytingum. Hefði verið stefnt að hagræðingu í rekstri hefði borginni verið í lófa lagið að rekja þau sjónarmið í uppsagnar­bréfi.

Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hennar hjá borginni. Hún fái ekki séð hvað felist í umræddum skipulagsbreytingum annað en að segja henni upp störfum. Þá hafi annar starfsmaður, sem sé systir leikskólastjórans, hafið störf í mötuneyti leikskólans einni viku áður en konunni var sagt upp starfi sínu. Þeim starfsmanni hafi ekki verið sagt upp störfum vegna skipulagsbreytinga heldur starfi hún enn í mötuneytinu.

Allan rökstuðning hafi skort fyrir uppsögninni.

Reykjavíkurborg hafnaði fullyrðingum konunnar. Leikskólastjórinn hafi ákveðið að fela utanaðkomandi aðila að annast rekstur mötuneytisins. Áður en konunni var sagt upp hefði leikskólastjórinn rætt ákvörðunina í samtali þar sem greint hafi verið frá því að henni stæði til boða að taka við starfi hjá viðkomandi aðila eða starfi leiðbeinanda á leikskólanum. Konan hafi ekki þegið boðið. Vildi borgin meina að leikskólastjórinn hafi rétt til að gera slíkar skipulagsbreytingar og hafi talið þær henta leikskólanum vel og einfalda reksturinn. Konan hafi ekki verið sú eina í starfsmannahópnum sem orðið fyrir áhrifum af breytingunum. Staða aðstoðarmanns í eldhúsi hafi verið lögð niður en viðkomandi starfsmaður tekið við öðru starfi á leikskólanum. Nýr starfsmaður hafi verið ráðinn í hlutastarf til að sinna uppvaski og öðrum verkefnum sem tengdust ekki eldhúsinu. Það starf væri afar frábrugðið starfi konunnar.

Borgin sagði uppsögnina hafa verið rökstudda og að henni væri samkvæmt lögum heimilt að segja starfsmanni í fæðingarorlofi upp ef gildar ástæður séu fyrir því.

Svigrúm

Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála segir að ekki verði annað séð en að ákvörðun um að útvista rekstri mötuneytisins til þriðja aðila falli undir það svigrúm sem atvinnurekandi hafi til þess að skipuleggja starfsemi sína. Þá liggi fyrir í gögnum málsins að skipu­lagsbreytingarnar hafi ekki beinst að konunni einni. Að sama skapi verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að borgin hafi boðið konunni annað starf á leikskólanum þegar hún sneri til baka úr fæðingarorlofinu. Þar með hafi borgin rækt skyldur sínar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Uppsögnin hafi því ekki falið í sér mismunun á grundvelli kyns, vegna töku fæðingarorlofs, og þar með ekki brot á lögunum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Sambúðarslit drógu dilk á eftir sér – Lögmenn miðluðu bankaupplýsingum í heimildarleysi

Sambúðarslit drógu dilk á eftir sér – Lögmenn miðluðu bankaupplýsingum í heimildarleysi
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Bubbi horfði á viðtal við Hallgrím og sá að hann væri í vandræðum – „Ég hef aldrei hitt Bubba áður“

Bubbi horfði á viðtal við Hallgrím og sá að hann væri í vandræðum – „Ég hef aldrei hitt Bubba áður“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fjórir handteknir eftir að busavígsla fór úr böndunum – Beittu vatnspyndingum og hýddu bert skinn með belti

Fjórir handteknir eftir að busavígsla fór úr böndunum – Beittu vatnspyndingum og hýddu bert skinn með belti
Fréttir
Í gær

Selfyssingur á sjötugsaldri klæmdist við stúlku sem hann hélt að væri 13 ára – „Stingdu titraranum í þig“

Selfyssingur á sjötugsaldri klæmdist við stúlku sem hann hélt að væri 13 ára – „Stingdu titraranum í þig“
Fréttir
Í gær

Hló og grét þegar hún las verklagsreglur KÍ um ofbeldi í skólum – „Þetta er svo fíflalegt að það er engu lagi líkt“

Hló og grét þegar hún las verklagsreglur KÍ um ofbeldi í skólum – „Þetta er svo fíflalegt að það er engu lagi líkt“
Fréttir
Í gær

Trump segir Maduro og eiginkonu hans að yfirgefa Venesúela strax

Trump segir Maduro og eiginkonu hans að yfirgefa Venesúela strax
Fréttir
Í gær

Dorrit var rænd á götum Lundúna í gær

Dorrit var rænd á götum Lundúna í gær
Fréttir
Í gær

Segja eina ástsælustu jólahefð Svía ýta undir brot á réttindum barna

Segja eina ástsælustu jólahefð Svía ýta undir brot á réttindum barna