

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og doktor í líf- og læknisfræði, vill seinka klukkunni á Íslandi.
„Á þessum árstíma velti ég því alltaf fyrir mér hvers vegna Ísland skuli enn fylgja tímabelti sem samræmist illa sólarhæð og náttúrulegum sólargangi. Staðarklukkan okkar er einfaldlega ekki rétt stillt miðað við legu landsins, og þetta misræmi hefur verið viðvarandi frá árinu 1968 þegar ákveðið var að festa landið á miðtíma (UTC) allt árið,“ segir hún í pistli á Vísi sem DV fjallaði um fyrr í vikunni.
Sjá einnig: Erla vill seinka klukkunni: „Með breytingunni gætu börn verið í dagsbirtu nánast alla skóladaga“
Erla hefur nú útbúið undirskriftalista á island.is sem þegar þetta er skrifað 1685 hafa skrifað undir.
„Vilt þú að klukkan á Íslandi verði leiðrétt og færð aftur um eina klukkustund?
Ísland hefur fylgt röngu tímabelti frá árinu 1968. Það þýðir að sólin rís um klukkustund seinna en klukkan segir, og við vöknum á undan náttúrulegri birtu. Þetta seinkar líkamsklukkunni, fjölgar dimmum morgnum og hefur áhrif á svefn, orku og líðan – sérstaklega hjá börnum og ungmennum.“