fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
Fréttir

Enn deilt um Blóðberg: Bók með lýsingum á hópnauðgun skyldulesefni hjá ungmennum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aftur hafa blossað upp umræður um notkun á sögulegu skáldsögunni Blóðberg í skylduáföngum í framhaldsskólum. Um er að ræða sögulega skáldsögu eftir Þóru Karítas Árnadóttur, sem fjallar um unga stúlku í Skagafirði á sautjándu öld sem lifir með ásökunum um blóðskömm eftir að hún elur barn. Þungunin er afleiðing hópnauðgunar.

DV greindi í fyrra frá mótmælum nemenda við M.A. við að þessi bók væri skyldulesning í íslensku í öðrum bekk skólans. Sjá nánar:

Nemendur við MA lesa bók með grófum lýsingum á kynferðisofbeldi 

„Í þessari bók eru grófar og ítarlegar lýsingar á grófu kynferðisofbeldi og nánara tekið til hópnauðgun,” sagði þá París Anna Bergmann, einn af nemendunum sem hafa barist gegn því að bókin sé skyldunámsefni. Ennfremur segir í fréttinni:

„París ásamt Ásdísi Lind Vigfúsdóttur hafa skrifað langt og ítarlegt bréf þar sem upplistaðar eru áhyggjur nemenda. Að þeirra sögn hefur málið verið mikið rætt á meðal nemenda, svo sem í spjallhópi. Meðal annars að fólk sem hafi orðið fyrir ofbeldi geti ekki farið afsíðis eða gengið út úr kennslustofunni án þess að upplýsa allan bekkinn um að þau hafi orðið fyrir slíku. Í stað þess að finna fyrir öryggi og stuðningi í skólastofunni þurfi nemendur að upplifa vanlíðan.“

Í fréttinni var einnig rætt við Drífu Snædal, talskonu Stígamóta, sem sagði að skólayfirvöld eigi að hlusta á ungt fólk þegar það biðst vægðar undan svona efni.

Þær París og Ásdís og skoðanasystkini þeirra meðal nemenda sögðust ekki ekki vera í stríði við kennara eða rithöfund bókarinnar, Þóru Karítas Árnadóttur, en þetta verk Þóru hefur fengið góða dóma.

Skiptar skoðanir

Umræða um notkun þessarar bókar sem skyldunámsefnis hefur nú blossað upp í opnum Facebook-hópi, Baráttuhóp gegn ofbeldismenningu. Þar er meðal annars tekist á um hvort þolendur ofbeldis eigi að hafa rétt til að forðast triggerandi efni og skoðanir eru mjög skiptar. Umræðan hefst á nafnlausri færslu:

„Þessu sama bók er enn verið að kenna í framhaldsskólum, FÁ til dæmis, sem skyldulesningu í skylduáfanga og nemendum ekki gefið tækifæri til að velja eitthvað annað. Þarna eru skólar að pína þolendur ofbeldis til að þurfa að viðurkenna og ræða það ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir við skólayfirvöld til að grátbiðja um að þurfa ekki að lesa triggerandi efni sem getur haft mjög neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra. Finnst ykkur þetta allt í lagi?“

Elísabet Kristjánsdóttir mannfræðingur deilir ekki þessari skoðun og bendir á að þolendur geti naumast komist hjá því að sjá triggerandi efni. Það hjálpi ekki að lesa eingöngu bækur sem ekki eru óþægilegar. Hún telur það ekki vera þolendavænt að útilokar sögur af þessu tagi:

„Það er nær ógerlegt fyrir þolendur að forðast alla triggera og ég get ekki séð hvernig það hjálpi neinum að lesa bara bækur sem eru flokkaðar sem „andlega auðveldar“. Að forðast alla triggera getur líka verið viðhaldandi þáttur í áfallastreitu og þeir eru líka bara úti um allt. Ekki bara í bókum eða sjónvarpsefni. Stundum verðum við bara að triggerast og kannski eigum við líka bara að gera það. Annað er bara að stinga hausnum í sandinn.

Það er ekki hægt að breyta samfélaginu í tómarúmi og rækta einhverja samkennd án þess að nokkuð komi til. Stundum er mun betra að lesa um veruleika manneskju og lifa sig inn í atburðarrás frekar en að lesa staðreyndir um ofbeldi á blaði. Bæði fyrir þolendur, gerendur og mögulega gerendur framtíðarinnar. Það er ekki þolendavænt umhverfi að útiloka þessar sögur því það getur verið mikilvægt að samsama sig einhverjum í bók. Í einrúmi, á sínum hraða.“

Sunna Kristinsdóttir söngkona, sem greint hefur opinberlega frá kynbundu ofbeldi sem hún hefur orðið fyrir, tekur í sama streng og segir að lestur sannrar reynslusögu á unglingsárum hafi reynst henni hjálplegur:

„Mér þótti það ótrúlegur mikill léttir á mínum unglingsárum að lesa bók sem var meira að segja sönn reynslusaga.

Mér þótti svo áhugavert að lesa um upplifun annara og svipað ofbeldi en öðruvísi og allskonar sem ég hafði aldrei áður getað rætt við aðra.

Eins og Elísabet segir þá þarf það ekki að vera að umræða um ofbeldi triggeri þolendur ofbeldis.

Það er verra ef við færum að banna tal um slíkt því það sé of triggerandi.

Þá erum við komin í hring.

Ég tel það skipta meira máli hvað stendur í bókinni, ekki um hvað það er.

Gott að hafa umræðu um svona mál og gera ungmenni sem eru mögulegir gerendur eða áhorfendur meðvituð um afleiðingar fyrir þolendur“

Nemandi neitaði að skrifa ritgerð um bókina

Nafnlaus nemandi í FÁ stígur fram og segist hafa neitað að lesa bókina og vinna ritgerð upp úr henni. Segir hann marga hafa kvartað en ekki verið tekið tillit til þess. Þar sem bókin er skyldulesefni sér hann fram á að falla í viðkomandi áfanga.

Bendir á að bókin sé fyrir fullorðna

Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands og margverðlaunaður rithöfundur, bendir á að skáldsagan Blóðberg sé ekki skrifuð fyrir ungmenni heldur fullorðna. Hún segir umræðuefnið vera flókið en mikilvægt sé að bókmenntir fjalli um sem flest í mannlegu samfélagi og geri okkur þannig kleift að segja okkur í spor annarra sem hafa ólíka lífsreynslu:

„Þetta er allt mjög flókið. Sem rithöfundur, lesandi og bókmenntaunnandi finnst mér mjög mikilvægt að bókmenntir fjalli um sem flest í mannlegu samfélagi. Í gegnum bækur getum við sett okkur í spor annarra og öðlast skilning á veruleika sem við upplifum ekki á eigin skinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir fólk að lesa um kynferðislegt ofbeldi til að skilja það og skaðan sem það getur valdið – einmitt til að auka meðvitund og reyna að koma í veg fyrir það. Við þurfum í raun miklu meiri skilning t.d. aðstandenda, líklegra gerenda etc. en líka yfirvalda, dómskerfisins o.s.frv. Hins vegar getur slíkur lestur verið erfiður fyrir þolendur – eðlilega en þá fer það örugglega líka eftir því hvar fólk er í úrvinnslunni. Fyrir sum getur lestur verið triggerandi en valdeflandi nokkrum árum síðar. Ég tók þátt í umræðunni þegar fréttin birtist í Kastljósi og benti þar á að þessi bók er ekki skrifuð fyrir ungmenni heldur fullorðið fólk en við eigum fullt af bókum sem skrifaðar eru sérstaklega fyrir ungmenni og nálgast lesandann með öðrum hætt. Og stundum væri meira val bara ansi gott.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp

Um 40 starfsmönnum Icelandair sagt upp
Fréttir
Í gær

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“

„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt“