

Andri Snær Magnason rithöfundur steig fyrst fram á ritvöllinn fyrir þrjátíu árum. Bækur hans hafa slegið í gegn hér heima jafnt sem erlendis. Á sama tíma hefur Andri Snær verið umdeildur enda oft á tíðum þrælpólitískur. Í ár gefur hann út bókina Jötunstein sem er kraftmikil ádeila á nútíma borgarskipulag og byggingarlist.
„Það svíður mig að ævistarf sé glæpavætt. Og þessi svona innrömmun á ævistarfið, þú veist, ævistarf Gyrðis er bara stórkostlegt. Og hann hefur notið stuðnings eiginlega allan tímann. Og þjóðin á að vera stolt af því að hafa búið til kerfi sem bjó þetta til,“
segir Andri Snær í viðtali við Frosta Logason á Brotkast þar sem hann ræðir um ritlistarlaunin umdeildu, vörn íslenskunnar, baráttuna fyrir ósnortinnii náttúru, loftslagsmálin og Jötunstein.
Frosti segir marga spyrja af hverju rithöfundar þurfa að vera á listamannalaunum þegar þeir eru komnir á þann stað að þeir eru gefnir út í mörgum löndum og þar eru stærri markaðir.
„Já, það er nú bara mjög góð spurning og sumir hafa hætt því. Og sumir eru minni, ég er ekki á launum núna. Sama manneskja segir bara: „Þetta er hræðilegt ólæsi barna,“ og á sama tíma: „Þarna, geta þessir aumingjar ekki fengið sér vinnu?“ Og Gunni Helgason allt í einu hefur orðin einhver afæta líka. Ég meina, lesendur eða áhorfendur geta reiknað út, hvað kostar að hafa 10 barnabókahöfunda. Að það sé bara markmið. Á hverjum tíma eru 10 manns í fullri vinnu við að búa til barnabækur.“
Andri Snær bendir á að bók hans LoveStar fékk verðlaun sem besta vísindaskáldsaga Frakklands 2016, um það bil 14 árum eftir að hún kom út á íslensku. „Ég þarf ekkert að skammast mín, ég þarf ekkert að setja fram með umsókn um að ég hafi skrifað leikrit. Það er í umsóknunum mínum. Þetta er bara fínt sko. Það að blaðamaður geti bara lagt svona fram og það valdi svona taugatryllingi hjá ákveðnum hópi. Þú ert að snerta einhverja beyglu í þjóðarsálinni sem að er bara eitthvað ofboðslega djúp og svört.“
Frosti segir marga ekki sammála því að rithöfundur eigi að vera opinbert starf. Andri Snær segir það ekki opinbert starf.
„Það er búið að styrkja menn frá Davíð Stefánssyni og Tómasi Guðmundssyni. Meira að segja Halldór Laxness fékk eftir að hann fékk Nóbelinn. 500 þúsund kall í verktakalaun eru ekki heil laun. Hver rithöfundur þarf tvöfalt mótframlag til að ná kennaralaunum. Ég hef alltaf þurft mikið á þessu að halda til að þurfa ekki að fara að vinna á auglýsingastofu eða verða upplýsingafulltrúi einhvers staðar, ég yrði bara mjög góður upplýsingafulltrúi, til þess að helga mig þessu.“
Andri Snær segir rithöfunda þannig þá stuðning til að skrifa á íslensku og það megi ræða hvort listamannalaunin séu forsvaranleg. Segist hann sjálfur myndu byggja kerfið upp með sama hætti og það er í dag.
„Ef ég væri ekki rithöfundur og myndi stinga upp á kerfi til að styðja íslenskuna. Hvernig, gæti ég gert það best? Ég myndi segja, fyrir svona hálfan milljarð á ári. Rithöfundasjóðurinn er 300 milljónir á ári. Sem er sko alveg ótrúlega lítið miðað við hvað kemur út úr honum. Fyrir svona hálfan milljarð á ári, þá, þá gætirðu gert svo mikið kraftaverk. Og hvernig myndi ég setja upp sjóðinn? Ég myndi setja hann upp svipað og núverandi sjóður, það er að segja, það er róterandi nefnd.“
Andri Snær segir að með þeim hætti séu 30 manns búnir að fara í gegnum gögn umsækjanda hafi hann fengið listamannalaun í 10-20 ár.
„Svo er hitt líka er það slæmt að þetta sé ævistarf? Það er að segja, að helga sig íslenskunni. Er það slæmt að hafa verið rithöfundur í 30 ár? Er þá komið gott? Eða á ég að vera farinn að afla mér tekna annars staðar? Þannig að ef að við ætlum okkur að það eigi ekki að vera ævistarf. Þegar ég kem inn í bókmenntirnar 1995, þá lít ég upp til Einars Más, Einars Kárasonar, Þórarins Eldjárns, Thors Vilhjálmssonar. Þetta eru allt menn sem voru þá byrjaðir að fá styrki og búnir að vera í áratug eða, eða lengur. Þessir menn kláruðu starfsævi sína með glans. Þú veist, þetta fólk var að gefa út frábærar bækur um sextugt. Og síðan gerist það öðru hverju í starfsævi höfundar að þú nærð einu sinni Draumalandi. Og þá má spyrja sig er hægt að gera ráð fyrir því að það gerist oft? Eða, eða þarf maður ekki að hugsa líf sitt svolítið eins og fótboltamaður? Bara núna er ég búinn að taka alla fjölskyldu mína í þetta ferðalag. Bara núna kom út þessi bók. Núna hendi ég niður skuldunum mínum. Vegna þess að það getur verið fimm ára eyðimerkurganga framundan.“
Segir hann hvern höfund fara sína leið í skrifunum.
„Og það er eitthvað verið að gera grín að mér fyrir að vera lengi að skrifa. Ef ég tala við erlendan útgefanda og ég eitthvað að dæsa, bara: „Já, þeir voru að skamma mig á Íslandi. Þú veist, fimm bækur á 25 árum.“ Bara, „Það er bara geggjað.“ Og líka, ef að þessar bækur voru eitthvað. Ef eitthvað er framlag til íslenskunnar, þá er það að brjóta land fyrir vísindaskáldskap og tungumál um hvernig á að tala um framtíðina. Ég fékk Philip K. Dick verðlaunin 2014. Ég þarf ekkert að skammast mín.“