
Í gær var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness mál gegn manni sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni.
Samkvæmt ákæru stóðu brot mannsins yfir meirihlutann af árinu 2022, á heimili mannsins. Er hann þar sagður hafa beitt stúlku ólögmætri nauðung og haft við hana samræði og önnur kynferðismök, í fjölda skipta. Lét hann stúlkuna hafa við sig munnmök og sleikti kynfæri hennar.
Nýtti ákærði sér yfirburði sína vegna aldursmunar og yfirburðarstöðu sinnar gagnvart stúlkunni, sem var aðeins 12 og 13 ára er brotin voru framin.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd stúlkunnar er gerð krafa um miskabætur að fjárhæð fimm milljónir króna.
Réttarhöld í málinu eru lokuð og hefur DV ekki upplýsingar um hvort maðurinn hafi játað eða neitað sök.