

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins eru birtar niðurstöður nýrra rannsóknar á heimilisofbeldi á Íslandi. Kemur fram að 15% Íslendingar hafa orðið fyrir heimilisofbeldi, 20% kvenna og 10% karla.
Í rannsókninni voru könnuð tengsl heimilisofbeldis við ýmsa sjúkdóma, t.d. áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða. Í greininni er dregin þessi ályktun:
„Hluti íslensku þjóðarinnar hefur orðið fyrir heimilisofbeldi og sú reynsla tengist ýmsum einkennum áfallastreituröskunar, þunglyndis, kvíða og streitu og tengist minni hamingju, en þau áhrif fara að einhverju leyti eftir kyni. Félagslegur stuðningur hafði neikvæð tengsl við einkenni áfallastreituröskunar, þunglyndis, kvíða og streitu en jákvæð tengsl við hamingju og því er mikilvægt að auka félagslegan stuðning.“
Oddur Ingimarsson, geðlæknir og lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, fjallar um rannsóknina í ritstjórnargrein. Hann segir heimilisofbeldi vera alvarlegt lýðheilsuvandamál hér á landi, þrátt fyrir að jafnfrétti kynjanna sé meira hér en víðast hvar annars staðar:
„Heimilisofbeldi er alvarlegt lýðheilsuvandamál sem hefur víðtæk neikvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega heilsu þolenda auk barna á heimilinu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl heimilisofbeldis hjá konum við einkenni áfallastreituröskunar (PTSD), þunglyndi, kvíða, skert lífsgæði og minni hamingju.1 Heimilisofbeldi tengist einnig aukinni hættu á langvinnum líkamlegum heilsufarsvandamálum eins og hjarta- og æðasjúkdómum og stoðkerfisverkjum. Þrátt fyrir mikið kynjajafnrétti á Íslandi og Norðurlöndunum er hlutfall heimilisofbeldis samt hátt og kann það að koma einhverjum á óvart að við höfum ekki náð meiri árangri þar.2 Oft leita þolendur sér ekki aðstoðar en meðal helstu hindrana sem koma í veg fyrir það eru skömm, ótti við gerendur, fjárhagslegar áhyggjur og skortur á aðgengilegum úrræðum.3 Þar að auki getur félagsleg einangrun, skortur á trausti til kerfisins og flókin áfallatengd einkenni gert það að verkum að þolendur sjá ekki fram á raunhæfa leið út úr aðstæðunum.“
Sjá nánar um rannsóknina og annað áhugavert efni í nýju tölublaði Læknablaðsins hér.