

Óhætt er að segja að Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum hafi farið yfir víðan völl og verið afar harðorður í viðtali við RÚV. Segir Úlfar ástandið innan lögreglunnar hér á landi ekki vera gott, spilling viðgangist innan hennar og hann hugleiði að sækja um embætti ríkislögreglustjóra.
Í viðtalinu gerir Úlfar upp umdeild starfslok sín en hann óskaði eftir að hætta strax þegar honum var tilkynnt að staða hans á Suðurnesjum yrði auglýst en fimm ára skipunartími hans ekki framlengdur. Hann segist standa við ákvörðun sína en rekur ákvörðun dómsmálaráðherra um að framlengja ekki skipunartímann til deilna hans við Haul Guðmundsson ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, sem nú hefur látið af því starfi.
Nú verður embætti ríkislögreglustjóra auglýst laust til umsóknar eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir vék úr embættinu og segist Úlfar vera að hugleiða að sækja um.
Úlfar segir ljóst að öll þau mál sem hafa komið upp innan lögreglunnar og saksóknaraembætta landsins að undanförnu ekki koma vel út fyrir þessar stofnanir. Nefnir hann þar meðal annars mál Karl Inga Vilbergssonar saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara sem var handtekinn fyrr á þessu ári og gisti fangageymslur yfir nótt. Upplýsa þurfi það mál betur en ef Karl Ingi vilji ekki gangast undir sekt verði að taka ákvörðun um hvort eigi ekki að ákæra hann.
Hann segir mál lögreglumanns sem grunaður er um að hafa stundað njósnir fyrir aðila á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar, í vinnutímanum og notað til þess lögreglumótórhjól sýni að spilling viðgangist innan lögreglunnar.
Úlfar greinir líka frá því að aðili innan lögreglunnar á Suðurnesjum hafi í hans tíð þar útvegað lögmanni nöfn lögreglumanna. Lögmaðurinn hafi verið að vinna fyrir hóp útlendinga og haft í kjölfarið uppi óbeinar hótanir í garð lögreglumanna. Þetta hafi lögmaðurinn gert fyrir glæpamenn en hvort um er að ræða sama lögmann og er nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðkomu að skipulagðri glæpastarfsemi og innflutningi á fólki segist Úlfar ekki vita það.
Úlfar gagnrýnir ýmislegt fleira í viðtalinu. Hann gagnrýnir greiningardeild ríkislögreglustjóra fyrir óljósar upplýsingar um fjölda glæpahópa á Íslandi, í skýrslum deildarinnar séu fullyrðingar sem hann hafi engar upplýsingar fengið um í sínum störfum. Eftirlit með fíkniefnainnflutningi væri alls ekki nægilegt og búnaður til þess ófullnægjandi.
Segir hann að vantraust hafi lengi ríkt milli lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og embættis ríkislögreglustjóra og það sé afar slæmt. Farsælast væri að einn ríkislögreglustjóri yrði yfir öllu landinu og fjórir lögreglustjórar undir honum, hver í sínum landshluta. Um leið þurfi að koma á fót sjálfstæðri stofnun sem hefði eftirlit með störfum lögreglu og stórefla þyrfti innra gæðaeftirlit hjá lögreglunni. Full þörf væri á þessu. Það bæru atburðir síðustu missera vott um.