

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tryllist gjörsamlega á dögunum undan ágengum spurningum blaðakonu frá Bloomberg-fréttaveitunni og lét óhróðurinn rigna yfir hana. Atvikið átti sér stað þann 14. nóvember síðastliðinn um borð í Air Force One, flugvél forsetans, en Daily Mail greindi frá atvikinu nú fyrir stundu. Umrædd blaðakona, Catherine Lucey, gekk þar á Trump og krafðist svara varðandi vandræðaganginn með Epstein-skjölin.
„Róaðu þig, róaðu þig, svínka,“ öskraði Trump en þetta er víst ekki í fyrsta sinn sem umrædd blaðakona kemur honum úr jafnvægi.
Atvikið er talið til marks um hversu erfitt og lýjandi Epstein-málið hefur reynst Trump enda er Bandaríkjaforseti sagður hundfúll með þá stefnu sem málið hefur tekið. Talið er að fulltrúaþing Bandaríkjanna muni kjósa um frumvarp sem kveður á um birtingu alla skjalanna síðar í dag, með yfirgnæfandi meirihluta, og þaðan fer málið til öldungardeildar þingsins og að endingu til staðfestingar hjá Trump.
Trump hefur reynt að koma í veg fyrir birtingu skjalanna frá því að hann tók við forsetaembættinu að nýju en varð svo að viðurkenna ósigur og leggja blessun sína yfir birtinguna og lofa því að hann myndi staðfesta lögin yrði það vilji beggja þingdeilda.