fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Fréttir

Stjórnarmaður RÚV segir pólitíska slagsíðu hafa áhrif á fréttaflutning miðilsins – „Fáránleikinn náði hápunkti hér um árið“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 13. nóvember 2025 10:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmaðurinn Ingvar S. Birgisson situr í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. og árin 2022-2023 var hann svo aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, þáverandi dómsmálaráðherra. Hann ritar í dag athyglisverða grein þar sem hann gagnrýnir meinta pólitíska slagsíðu Ríkisútvarpsins. Hann kallar eftir því að ríkismiðillinn ráði til sín starfsmenn með fjölbreyttari skoðanir en þar sé að finna í dag.

Skrif stjórnarmannsins má rekja til umræðunnar um breska ríkismiðilinn BBC. The Telegraph afhjúpaði minnisblað innan úr BBC, en þar kom fram að kerfisbundna hlutdrægni væri að finna í fréttaflutningi miðilsins. Einkum hvað varðar bandarísk stjórnmál, trans fólk og Palestínu. Málið hefur valdið miklu fjaðrafoki og grafið undan trausti til fjölmiðla. Eins hafi málið afhjúpað hvernig heimsmynd og skoðanir fréttamanna geti mótað fréttaflutning. Ekki sé um að ræða hlutdrægni í formi falsfrétta heldur frekar í nálgun umfjöllunarefna.

Sama eigi við um RÚV

Ingvar telur sambærileg sjónarmið eiga við um Ríkisútvarpið (RÚV). Þar hafi skoðanir starfsmanna áhrif á fréttaflutning sem birtist með skýrum hætti, að mati Ingvars, í tilteknum málum, svo sem í umfjöllun um útlendingamál. RÚV hafi ítrekað flutt fréttir þar sem mikið er gert úr brottvísun útlendinga í einstaka tilvikum. Þar sé nálgunin gjarnan sú að allur fréttaflutningurinn sé byggður á sjónarhorni útlendingsins og ekkert tillit tekið til þeirra gagna sem voru grundvöllur brottvísunar. Þannig hafi hófsöm útlendingalöggjöf verið gerð tortryggin. Á sama tíma hiki RÚV við að flytja fréttir um þá galla sem fylgja of opinni útlendingastefnu, bæði á Íslandi og annars staðar.

„Fáránleikinn náði hápunkti hér um árið þegar fluttar höfðu verið fjöldi frétta um mann frá Gana sem átti að brottvísa. Þegar úrskurðurinn hans komst loks í fjölmiðla kom í ljós að hann hafði m.a. sótt um alþjóðlega vernd á þeirri forsendu að samlandar hans myndu ofsækja hann fyrir að hata samkynhneigða of mikið. Það var nú það.“

Lögmaðurinn nefnir fleiri dæmi. Svo sem málefni Steinþórs Gunnarssonar athafnamanns. RÚV hafi farið mikinn þegar Steinþór var ákærður og svo dæmdur sekur fyrir markaðsmisnotkun í svokölluðu Ímon-máli. Miðillinn hafði þó engan áhuga á því þegar Steinþór fékk mál sitt endurupptekið og var á dögunum sýknaður.

Annað dæmi sé bensínstöðvalóðamálið svokallaða. Þar hafi fréttamaður unnið að umfjöllun í langan tíma þar sem spjótunum var beint að viðskiptum borgarinnar með bensínstöðvarlóðir. Hins vegar neitaði ritstjóri Kveiks að birta umfjöllunina og sagði að hæfileikar fréttamannsins yrðu sennilega betur nýttir á öðrum vettvangi en í Kveik. Málið vakti mikla reiði og fór svo að umfjöllunin birtist í Kastljósi og varð til þess að innri endurskoðun átaldi borgina fyrir vinnubrögð.

Sjá einnig: Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Útvarp allra en ekki sumra

Ingvar segir ljóst að margt gott fólk starfi innan RÚV en þar ríki þó einsleitni hvað skoðanir varðar. Þeir fáu sem mögulega hugsi með öðrum hætti en meirihlutinn veigri sér við að viðra skoðanir sínar á kaffistofunni. Telur lögmaðurinn nauðsynlegt fyrir hlutleysi RÚV að starfsliðið endurspegli fjölbreyttari skoðanir en í dag.

„Ég hef ekki trú á því að nokkur fréttamaður mæti í vinnuna, hvorki á Ríkisútvarpinu né annars staðar, og reyni að láta halla réttu máli í störfum sínum. En það er óumflýjanleg staðreynd að lífsreynsla fólks, skoðanir þess og áhugi hefur áhrif á efnistök. Það sem einum finnst vera aðalatriði finnst öðrum vera aukaatriði. Af því leiðir að ef Ríkisútvarpið ætlar raunverulega að gæta að hlutleysi sínu þarf að starfa á stofnuninni fjölbreyttur hópur fólks sem hefur fjölbreyttar skoðanir og tengingar við íslenskt samfélag. Stofnunin þarf þar að auki að tileinka sér menningu þar sem starfsmenn geta rætt mál opinskátt og sammælst um að vera ósammála. Þetta er jú útvarp allra landsmanna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Þorleifur Kamban er látinn

Þorleifur Kamban er látinn
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Vandað atvinnuhúsnæði rís á Völlunum í Hafnarfirði

Vandað atvinnuhúsnæði rís á Völlunum í Hafnarfirði
Fréttir
Í gær

Góð tíðindi fyrir meinta Gilgo-raðmorðingjann Rex Heuermann

Góð tíðindi fyrir meinta Gilgo-raðmorðingjann Rex Heuermann
Fréttir
Í gær

Ásakanir um einelti á árshátíð laganema í HR – „Þetta var mjög niðurlægjandi“

Ásakanir um einelti á árshátíð laganema í HR – „Þetta var mjög niðurlægjandi“
Fréttir
Í gær

Bónus og viðskiptavinir styrkja Krabbameinsfélagið um 5 milljónir króna

Bónus og viðskiptavinir styrkja Krabbameinsfélagið um 5 milljónir króna
Fréttir
Í gær

Betur fór en á horfðist hjá ungum börnum í Reynisfjöru

Betur fór en á horfðist hjá ungum börnum í Reynisfjöru