

Risastórt fiskabúr sprakk á veitingastað í Kína. Lifandi fiskar sprikluðu út um allt gólf.
Blaðið New York Post greinir frá þessu.
Myndband náðist af atvikinu sem átti sér stað á sjávarréttastað í borginni Fuzhou á austurströnd Kína miðvikudaginn 15. október síðastliðinn.
Kemur fram að starfsfólkið hafi verið að sinna sínum daglegu störfum í eldhúsinu þegar risastórt fiskabúr sprakk. Flæddi mikið magn vatns og lifandi fiskar út um allt. Inn í eldhúsið og fram í sal.
Gestirnir orguðu þegar þeir sáu allt í einu gapandi fiskana streyma inn í salinn. Starfsfólkinu brá einnig en vissi ekkert hvernig ætti að bregðast við þessu.
Ekki er vitað hvað kom fyrir en fiskabúrið var nýuppsett á veitingastaðnum. Ekki er heldur vitað hversu mikið tjón hlaust af slysinu. En eigandinn tilkynnti að allir gestirnir sem voru á staðnum þegar þetta gerðist hafi fengið frítt að borða.