

Miðflokkurinn er á miklu flugi þessa dagana á meðan Sjálfstæðisflokkurinn má muna fífil sinn fegri. Kastljós freistaði þess að fá skýrari svör frá Miðflokknum varðandi stefnu þeirra í útlendingamálum og hvort þeir séu mótfallnir því að hingað komi útlendingar til að vinna. Fyrir svörum sátu Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, og Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Fréttamaðurinn Bergsteinn Sigurðsson tók fram að flestir viti í dag hvar Miðflokkurinn stendur í málefnum hælisleitenda, annað eigi við um innflytjendamál almennt. Margir hafi skilið það svo af málflutningi varaformanns flokksins, Snorra Mássonar, á dögunum að Miðflokkurinn sé almennt ekki hrifinn af innfluttu vinnuafli.
Sigríður svaraði að Miðflokkurinn standi fyrir skynsama stefnu í innflytjendamálum. Bergsteinn taldi þetta svar ekki duga og vildi vita hvað það þýðir nákvæmlega.
„Það þýðir að við auðvitað erum með opin landamæri gagnvart fólki upp að ákveðnu marki, en það þarf auðvitað að vera þannig að hagkerfið og innviðirnir, þeir verða að þola hérna, hvað á maður að segja, sókn útlendinga inn til Íslands, bæði þegar kemur að vinnu, leggjum til hliðar hælisleitendur, en líka þegar að fólk kemur hingað til þess að óska eftir vinnu, kemur tímabundið, þá auðvitað þurfa kerfin að geta tekið á því, til dæmis ef verið er að misnota kerfið.“
Sigríður vísaði til þess að nýlega hafi komið upp að verið sé að misnota námsmannaleyfin hér á landi, þar sem útlendingar sækja um námsleyfi en eru í raun komnir til að vinna svart. Þetta skapi þrýsting á efnahagslífið og innviðina.
Bergsteinn tók þá fram að Snorri Másson hafi fullyrt í grein á dögunum að hrun vestrænnar siðmenningar vofi yfir. Sigríður sagðist ekki geta tekið undir með varaformanni sínum.
„Hann getur nú verið skáldlegur. Það er alger óþarfi að vera með heimsendaspár í umræðu um þetta og ég veit ekki í hvaða samhengi hann var að setja þetta fram. En hann skýrir kannski svolítið hluta af þessari fylgissveiflu Miðflokksins, að hann talar til fólks á mannamáli.“
Jens Garðar tók fram að stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum innflytjenda sé skýr. Sjálfstæðisflokkur hafi breytt útlendingalögum á síðasta ári, brottvísunum hafi fjölgað mikið og umsóknum um hæli fækkað. Eins hafi Sjálfstæðisflokkurinn sett mikið fjármagn í baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Auðvitað eigi að taka hart á því þegar útlendingar komi til landsins til að misnota kerfið og neita að gangast við íslenskum gildum og menningu. Sjálfstæðisflokkurinn tali þó ekki gegn þeim útlendingum sem hingað koma og hafa komið til að vinna nauðsynleg störf, greiða sína skatta og verða hluti af samfélaginu okkar.
„Það er bara fullt af fólki sem vinnur mikilvæga vinnu í hagkerfinu okkar, er í fiskvinnslunum, er á hótelunum, er á hjúkrunarheimilum og hér úti um allt að vinna, borgar sína skatta og skyldur, býr hér og eru bara orðnir íslenskir þegnar.“
Bergsteinn freistaði þess þá aftur að fá skýr svör um stefnu Miðflokksins í innflytjendamálum, hvort flokkurinn væri aðeins að tala fyrir harðari stefnu gegn hælisleitendum eða innflytjendum almennt.
Sigríður sagði Miðflokkinn ekki standa fyrir harðari stefnu gegn innflytjendum heldur vill hann bara benda á augljós atriði. Flæði útlendinga hafi verið of mikið og það hafi skapað vandamál í efnahagslífinu.
Jens skaut inn að á sama tíma hafi þetta flæði útlendinga myndað grunninn að hagvexti Íslands.
Sigríður tók fram að slíkur hagvöxtur væri ekki á vetur setjandi.
„Knúinn af innflutningi á vinnuafli af því að það er verið að fjölga fólki hér en án þess að það komi einhver verðmætasköpun eða aukin framleiðni. Þannig að það er einmitt þetta sem menn þurfa að ná að greina og ræða og grípa þá til einhverra aðgerða. Og ég nefndi það fyrir mörgum árum að það þyrfti að vera einhver aðeins meiri skynsemi í því þegar menn eru að veita atvinnuleyfi hér til útlendinga. Það þyrfti að gera það í meiri samvinnu, til dæmis við verkalýðsfélögin, atvinnulífið og markaðinn eins og hann er á hverjum tíma. Það þýðir ekki bara að sitja hér og segja: „Já, við bara hérna, það getur hver sem er komið hingað inn“. Það er ekkert ríki sem gerir það með tilheyrandi álagi á innviðina.“
Sigríður tók samt fram að hér búa tugþúsundir útlendinga sem Ísland þarf á að halda og Miðflokkurinn áttar sig á því en kallar eftir skynsemi.
Jens spurði þá hvort Sigríður væri að meina að aðrir flokkar væru að tala fyrir því að það ætti ekki að vera skynsemi um þessi mál og hvort hún hafi heyrt slíkt frá Sjálfstæðisflokknum.
Sigríður sagði skorta á að Sjálfstæðismenn ræði þetta. Þeir tali meira eins og allt sé frábært og ekkert að óttast og hægt að hafa opin landamæri án þess að ræða áskoranir sem slíku fylgja.
Lengra var ekki komist með umræðuna í bili en Bergsteinn telur líklegt að þessi málefni verði áberandi á þinginu í vetur.
Um 70 þúsund innflytjendur voru búsettir á Íslandi á síðasta ári. Af þeim koma rúmlega 70% frá öðrum Evrópuríkjum, tæp 15% frá Asíu, rúmlega 7% frá Mið- og Suður-Ameríku, rétt rúmlega 3% frá Afríku og rétt rúmlega 2% frá Norður-Ameríku.
Langflestir koma frá Póllandi, næst frá Úkraínu, svo Litháen, Rúmeníu, Filippseyjum, Lettlandi, Víetnam, Þýskalandi, Venesúela, Portúgal, Bandaríkjunum, Taílandi, Spáni og Bretlandi.
Innflytjendur voru í janúar árið 2020 55.354 eða um 15,2 prósent mannfjöldans, en árið 2012 voru þeir um 8 prósent mannfjöldans.