Slökkviliðskona í Flórída fylki í Bandaríkjunum hefur verið ákærð fyrir áreitni gegn fyrrverandi unnusta sínum. Hún dreifði 75 notuðum túrtöppum á lóðina heima hjá honum.
Blaðið New York Post greinir frá þessu.
Slökkviliðskonan, hin 28 ára Gabrielle Franze, sem hefur starfað sem reykkafari hjá slökkviliðinu í Orange sýslu síðan 2019, var handtekin eftir að myndir náðust á öryggismyndavélar af henni fremja ódæði á lóð fyrrverandi unnusta síns.
Um klukkan 10 mánudagskvöldið 29. september keyrði hún að heimili hans í bænum DeLand og dreifði notuðum túrtöppum út um allt. En hann hafði þá tekið saman við aðra konu.
Það var hin nýja kærasta sem hringdi á lögregluna í Volusia sýslu daginn eftir þegar hún ástmaðurinn vöknuðu og sáu ófögnuðinn á lóðinni. Lögreglan mætti á svæðið til að rannsaka málið. „Túrtapparnir eru rauðlitaðir og hugsanlega notaðir,“ sagði í lögregluskýrslunni. Voru þeir 75 talsins.
Parið var með öryggismyndavélakerfi sem náði að fanga sökudólginn. Sást pickup-bíll af sömu gerð og Franze á keyra hægt upp að lóðinni. Þá sást bíllinn stopp í nokkra stund og augljóst að ökumaðurinn var að bíða eftir að allir aðrir bílar í nágrenninu keyrðu burt. Þegar tækifærið gafst steig konan út úr bílnum og kastaði túrtöppunum á lóðina.
Bíllinn var auðþekkjanlegur vegna þess að aftan á honum eru búr fyrir hunda. Þá sáust númer bílsins einnig í öryggismyndavél annars staðar í hverfinu á svipuðum tíma að sögn lögreglu.
Í lögregluskýrslunni segir einnig að talið sé að ástæða þess að Franze hafi framið þennan verknað hafi verið óánægja með að fyrrverandi elskhugi hennar skyldi halda áfram með lífið eftir samband þeirra. Verknaðurinn hefði verið framinn í afbrýðisemiskasti.
Til að styðja var bent á að Franze hefði birt færslur á samfélagsmiðlum þar sem hún lýsti vanþóknun sinni á hinu nýja sambandi unnustans fyrrverandi.
Þegar lögreglan mætti á heimili Franze og spurði hana um þetta sagðist hún ekki einu sinni vita hvar ástmaður hennar fyrrverandi ætti heima. Þegar henni voru sýndar myndirnar af bílnum þá viðurkenndi hún að hafa farið á staðinn en sagði að þetta hefði ekki verið hennar hugmynd.
Sagði hún að móðir hennar og móðursystir hefðu komið í bæinn í heimsókn og að þær hefðu stungið upp á þessum viðurstyggilega „hrekk“. Þá hafi þær keypt nokkra pakka af túrtöppum og málað þá rauða til að það liti út fyrir að þeir væru notaðir.
Ákæruvaldið lítur hins vegar ekki á verknað Franze sem hrekk heldur áreitni og hefur ákært hana í tveimur liðum. Hafi verknaðurinn verið ólöglegur og haft þann eina tilgang að valda skaða. Var Franze handtekin en greiddi hún tryggingu til að vera laus fram að réttarhöldum. Hefur hún verið leyst tímabunið frá störfum í slökkviliðinu.