fbpx
Þriðjudagur 07.október 2025
Fréttir

Héðinn ómyrkur í máli: Hótelið dregið niður á bókunarsíðum vegna slæmra vega

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. október 2025 10:30

Myndin í bakgrunni birtist í umsögn ferðamanns sem var mjög ánægður með hótelið, en minna ánægður með vegina.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er óneitanlega sérstök staða að reka fyrirtæki sem skorar hátt á öllum bókunarsíðum en í einhverjum tilfellum er einkunn fyrirtækisins tekin niður vegna slæmra vega.“

Þetta segir Héðinn Birnir Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Hótels Djúpavíkur, Baskaseturs og fasteignasali, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sinni segir Héðinn að fyrrverandi ríkisstjórnir og sitjandi stjórnvöld hafi brugðist þessu afskekktasta og einu fámennasta sveitarfélagi landsins. Þrátt fyrir góð fyrirheit ráðamanna hafi ástand vega í sveitarfélaginu farið hratt versnandi.

Vegirnir nánast ófærir

„Við hér í Árneshreppi erum vön því að vera ekki efst á lista hvað varðar viðhald vega og framtíðaruppbyggingu þeirra. Heimamenn hafa axlað þennan kross í gegnum áratugina með einstöku langlundargeði og æðruleysi en jafnframt óbilandi trú á framtíðina og sveitarfélagið okkar. Sumarið 2025 fer nú í sögubækurnar fyrir einkum tvennt: Langa blíðviðriskafla með tilheyrandi fjölda ferðamanna og því samhliða álagi á innviði. Hitt atriðið er að vegirnir eru nánast ófærir vegna slaks viðhalds síðustu ár,“ segir Héðinn í grein sinni.

Hann segir að Árneshreppsbúar hafi hingað til fengið veghefil í hreppinn að jafnaði tvisvar á sumri og jafnvel oftar. Í sumar hafi hann komið einu sinni og það í mýflugumynd. „Vegurinn hingað norður hefur sjaldan eða aldrei verið verri,“ segir hann.

Héðinn segir að þessi staða sé sérstaklega slæm í ljósi þess að margt hafi breyst til batnaðar á síðustu árum. „Kynslóðaskipti hafa átt sér stað hjá bændum, skólinn var opnaður að nýju síðastliðinn vetur, strandveiðar eru öflugar og ferðaþjónustan styrkist ár frá ári. Einnig hefur fjöldi húsa verið reistur hér til sumar- og heilsársdvalar,“ segir hann og veltir fyrir sér hvað veldur þessu ástandi.

„Er ekki hægt að leggja veg í Árneshrepp vegna landfræðilegrar stöðu? Er krafan um mannsæmandi veg hingað norður ósanngjörn? Er þetta eðlileg staða þegar horft er til höfðatölu og skattframtala þeirra fáu sem búa hér? Svarið er einfalt nei, ekkert af ofantöldu. Er það afleiðing af því að skattstofni á bifreiðar er ekki ráðstafað rétt? Þetta er pólitísk ákvörðun. Árneshreppur er alltaf látinn mæta afgangi þegar kemur að samgöngumálum.“

„Munt vorkenna þér og bílnum þínum“

Héðinn segir að þetta kristallist í þeirri staðreynd að á svæðinu hafi engar stórtækar vegaframkvæmdir átt sér stað síðastliðinn aldarfjórðung. Á hann þá við framkvæmdir sem snúa að uppbyggingu vega og uppfærslna þeirra til nútímakrafna.

„Vegur í Árneshrepp var lagður (með jarðýtu) 1966 af hópi eldhuga að áeggjan sveitarstjórna í Strandasýslu. Nú, árið 2025, liggur þessi sami vegur nánast óbreyttur á helstu flöskuhálsunum á leiðinni frá Bjarnarfirði norður í Árneshrepp,“ segir hann og bætir við að ítrekað hafi stærstu vegabótinni, vegagerð yfir Veiðileysuháls, verið frestað.

Héðinn telur að stjórnvöld hafi hreinlega brugðist.

„Hótel Djúpavík, fjölskyldufyrirtækið okkar, varð 40 ára á þessu sumri. Margt hefur breyst á síðustu 40 árum, sumt til batnaðar og annað ekki. Það er óneitanlega sérstök staða að reka fyrirtæki sem skorar hátt á öllum bókunarsíðum en í einhverjum tilfellum er einkunn fyrirtækisins tekin niður vegna slæmra vega. Þegar vegamál berast í tal við gesti og gangandi nefna gestir okkar stundum að það sé út af fyrir sig ákveðinn sjarmi að keyra þessa vegleysu en bæta jafnframt við „svona einu sinni á ævinni“. Það gefur augaleið að við stöndum ekki jafnfætis keppinautum okkar í ferðaþjónustu hvað varðar samgöngur. Lengi hefur það verið mín trú að jafnaðarreglan hafi verið margbrotin á okkar litla fyrirtæki í gegnum tíðina vegna slæmrar þjónustu,“ segir Héðinn meðal annars í grein sinni.

Héðinn virðist hafa mikið til síns máls ef marka má umsagnir um hótelið á Google. Í einni slíkri hrósar ferðamaður hótelinu í hástert en segir síðan, í lauslegri þýðingu blaðamanns:

„En passaðu þig: vegirnir eru HRÆÐILEGIR og á meðan engir F-vegir eru, munt þú vorkenna bílnum þínum og sjálfum þér. Þessir vegir eru ekkert skemmtilegir við góðar aðstæður hvað þá þoku, rigningu eða á nóttunni. Heimamenn munu flakka um þetta á 2WD en ekki láta blekkjast, jafnvel í Land Cruiser muntu upplifa gremju.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segja Ísraela hafa misþyrmt og niðurlægt Gretu Thunberg

Segja Ísraela hafa misþyrmt og niðurlægt Gretu Thunberg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vísindamenn spenntir – gæti líf fundist á tungli Satúrnusar?

Vísindamenn spenntir – gæti líf fundist á tungli Satúrnusar?