„Stórkostlegur dagur í gær fyrir íslenskt tónlistarfólk í borginni!“ Á þessum orðum hefst færsla athafnamannsins Einars Bárðarsonar sem gerir það að umtalsefni hversu margir stórir tónlistarviðburðir fóru fram á höfuðborgarsvæðinu í gær og hversu góð mæting var á þá.
„Uppselt á GusGus í Laugardalshöll, tvennir uppseldir tónleikar hjá Friðriki Ómari og félögum í Eldborg í Hörpu, Bob Dylan Tribute í næsta sal við það, fullt hús í Háskólabíói hjá Jóhönnu Guðrúnu og félögum með Mamma þarf að djamma. Í Hafnarfirði var fullt út úr dyrum hjá Á móti Sól í Bæjarbíó, og Hjálmar spiluðu fyrir troðfullan sal á nýja staðnum Ægi 220. Þá var einnig uppselt í Borgó á Moulin Rouge – sem er auðvitað söngleikur,“ skrifar Einar.
Hann hefur marga fjöruna sopið sem skipuleggjandi viðburða og tekur þessu ekki sem sjálfsögðum hlut.
„Allt þetta á einu og sama kvöldinu – hugsið ykkur! Allt þetta frábæra tónlistarfólk að störfum, og öll afleidd störf í kringum viðburðina – tæknifólk, stílisera, grafíska hönnuði, ljósmyndara og fleira. Geggjað, algjörlega geggjað!“ skrifar Einar.
Annar tónlistarmógúll, Óli Palli á Rás 2, skrifar athugasemd við færsluna og bendir á fleiri viðburði á Norðurlandi sem einnig hafi hlotið góðar viðtökur.
„Uppselt á Eyrarrokk á Akureyri – líka á Skálmöld á Græna hattinum og Stjórnina í Hofi,“ skrifar Óli Palli.