Íbúar í fjölbýlishúsi í Þýskalandi hringdu á lögregluna út af stanslausu „dyraati“. Þegar lögreglan mætti á svæðið brá henni í brún því að það var snigill sem hafði verið að hringja bjöllunum.
Huffington Post greinir frá þessu.
Það voru íbúar í fjölbýlishúsi í bænum Schwabach í suðurhluta Þýskalands sem fengu sig fullsadda af sífelldum dyrabjölluhringingum þar sem enginn virtist vera við húninn. Gerðu þeir ráð fyrir að krakkaskrattar eða einhver truflaður aðili væri að ýta á bjöllurnar og gera at.
En þegar lögreglan mætti á svæðið fann hún enga hrekkjalóma heldur slímugan snigil sem reyndist vera sökudólgurinn. Hafði snigillinn skriðið hægt upp og niður eftir dyrabjölluspjaldinu og hringt hverri bjöllunni á fætur annarri.
Að sögn lögreglunnar var snigillinn yfirbugaður en ekki handtekinn. Þess í stað fékk hann tiltal og var sleppt á næsta grasblett.
Merkilegt nokk þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem „dyraat“ snigla kemst í heimsfréttirnar. Árið 2021 þá vaknaði kona í Essex sýslu í Bretlandi, að nafni Lianne Jennings, við að snigill var að ýta á bjölluna. Sá hún snigilinn í dyramyndavélinni.
„Fyrst varð ég hrædd en svo þegar ég spilaði þetta aftur fór ég að hlægja,“ sagði frú Jennings á sínum tíma. „Þegar ég sýndi vinum mínum myndbandið þá fannst þeim þetta mjög skrýtið. Þeir horfðu á mig eins og þeir hefðu séð draug eða geimveru eða eitthvað.“