fbpx
Föstudagur 24.október 2025
Fréttir

Guðmundur segir að þetta sé krafan sem kvennahreyfingin gleymdi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 24. október 2025 16:30

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi verði ekki heildstæð nema einnig verði hugað að þeim sem beita ofbeldi.

Hann segir nauðsynlegt að setja fram skýra kröfu um að íslensk lög tryggi markvissa endurhæfingu þeirra sem beita ofbeldi — hvort sem þeir afplána refsingu í fangelsi eða utan þess.

Í dag standa konur og kvár um land allt saman í kvennaverkfalli til að mótmæla kynbundnu ofbeldi og krefjast raunverulegs jafnréttis. Guðmundur Ingi skrifar grein á Vísi undir yfirskriftinni Krafan sem kvenna­hreyfingin gleymdi.

Hættan vex án markvissrar meðferðar

„Þolendur eiga rétt á vernd, stuðningi og réttlátum viðbrögðum frá kerfinu. En þessar aðgerðir verða ekki fullnægjandi nema einnig sé hugað að gerendunum, því án markvissrar meðferðar og endurhæfingar vex hættan á að brotin verði endurtekin,” segir Guðmundur Ingi í grein sinni.

Hann segir að á meðal aðalkrafna kvennahreyfingarinnar ætti í því ljósi að vera heildarendurskoðun fullnustukerfisins með endurhæfingu gerenda að leiðarljósi.

„Við sem störfum að þessum málum vitum að ef ekki er í boði endurhæfing er líklegt að brotaþolum fjölgi. Í dag búa þolendur við aðstæður sem virðast oft brotakenndar, skorti samræmingu og á köflum hreinlega ófullnægjandi. Ýmsir stuðningsþættir virka þó, eins og neyðarsímar, athvarf og félagsráðgjöf. En endurtekin ofbeldisbrot sýna að meira þarf að koma til,“ segir hann.

Guðmundur Ingi segir margt benda til þess að þegar gerendur fái markvissa endurhæfingu eins og hugræna atferlismeðferð, samtalstækni jafningja og fleira með áherslu á áhættuþætti þá dragi úr endurkomum í fangelsi. Hann tekur þó fram að vissulega sé árangurinn háður gæðum meðferðar og samfellu á milli fangelsa og samfélags.

Má ekki gleyma gerendum

„Til að árangur náist þarf að samþætta lagaákvæði og gera heildarendurskoðun á lögum um fullnustu með endurhæfingu að leiðarljósi. Lög sem krefjast þess að við dómsuppkvaðningu verði skýrt hvort endurhæfing eigi að vera hluti af dómi, með skýrum kröfum um faglega meðferð og eftirlit. Þá þyrfti að tryggja að yfirvöld og þjónustuaðilar bæru ábyrgð á að úrræði væru samhæfð og að þjónustan haldi áfram eftir afplánun þannig að yfirfærsla milli kerfa sé tryggð. Þetta felur m.a. í sér að til staðar séu sérhæfðar deildir innan fangelsa eða að gerðir séu samningar við samtök sem uppfylla kröfur um gæði, eftirlit og endurhæfingu út frá áhættu og þörfum,“ segir hann.

Hann segir að lokum að þegar barist er fyrir betri löggjöf gegn ofbeldi, þegar krafist er rafræns eftirlits og betri nálgunarbannslöggjafar og þegar við styrkjum vernd þolenda þá megi ekki gleyma gerendum. Án markvissrar endurhæfingar sé hætta á að til verði nýir þolendur.

„Það vantar í kröfugerð Kvennaverkfalls að íslensk lög skuli mótuð þannig að yfirvöldum verði gert að bera ábyrgð á endurhæfingu gerenda, með gæðastöðlum, eftirliti, samfellu og áhættumati. Þannig sköpum við raunverulegt öryggi í samfélaginu fyrir konur, kvár og öll önnur sem glíma við ofbeldi. Ég vona að kvennahreyfingin taki undir þetta og leggi okkur lið í baráttunni við að fá stjórnvöld til að fækka brotaþolum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Halla forseti tekur sér frí á morgun

Halla forseti tekur sér frí á morgun
Fréttir
Í gær

Fá aðeins að sjá tvo tölvupósta um meintar ógnir og áreitni Rússa í garð starfsfólks sendiráðs Íslands í Moskvu

Fá aðeins að sjá tvo tölvupósta um meintar ógnir og áreitni Rússa í garð starfsfólks sendiráðs Íslands í Moskvu