Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Spursmála og blaðamaður á Morgunblaðinu, segir kvennaverkfallið vera tímaskekkju. Hann birtir póst sem foreldrum barna í Urriðaholtsskóla barst þar sem kynnt er töluverð röskun á kennslu næsta föstudag þegar kvennaverkfallið stendur yfir. Stefán Einar segir á Facebook-síðu sinni, og merkir bæjarstjóra Garðabæjar, Almar Guðmundsson:
Þennan póst fékk ég sendan frá skóla barnanna minna fyrr í dag. Þar segir að Garðabær styðji jafnréttisbaráttu kvenna og kynseginfólks.
Og þar er bent á að verkfall hafi verið boðað 24. október næstkomandi.
Nú eru í gildi lög í landinu um verkfallsboðanir og verkfallsaðgerðir. Hefur þeim lögum verið fylgt við boðun þessarar vinnustöðvunar?
Og ef Garðabær stendur með konum og kvárum, þá má eins spyrja, stendur bærinn með börnum bæjarins og foreldrum þeirra? – Hvað segir þú Almar Guðmundsson?
Stefán segir kvennaverkfallið vera tímaskekkju og fílagang. Hann segist styðja jafnréttisbaráttuna af heilum hug og vera tilbúinn að leggja þar sitt af mörkum. En hann segir að fólk þori ekki að segja hug sinn til kvennaverkfallsins af ótta við að vera vænt um að styðja ekki jafnrétti:
„Ég held að það sé löngu kominn tími til þess að hætta þeim fíflagangi sem hér veður uppi og segja hlutina eins og þeir eru. Aðgerðir af þessu tagi eru algjör tímaskekkja í nútímasamfélagi og gera í raun lítið úr konum fremur en hitt.
Ég styð jafnréttisbaráttuna af heilum hug og er tilbúinn að leggja öll þau lóð á vogarskálarnar sem ég get í því efni. En mér er óljúft að sitja undir þessu – og ég veit að það sama gildir um ótrúlegan fjölda fólks af báðum kynjum.
Vandinn er sá að fólk þorir ekki að segja hug sinn. Af hverju ekki? Því þá kemur liðið með heykvíslarnar og stimplana og spyr með þjósti: ertu á móti jafnrétti? ertu á móti konum? Hvað er eiginlega að þér?
Svörin eru einföld: Nei, nei og ekkert.“