Fyrirsögn Nútímans var: Dóra Björt boðar bíllausa borg – kaupir sjálf hús með þremur bílastæðum og bílskúr. Dóra svarar skrifunum í færslu á Facebook þar sem hún rekur að hún sé hluti af samsettri fjölskyldu og að stjúpsonur hennar sé í skóla í Grafarvogi. Hún hafi eignast sinn fyrsta bíl eftir að yngri sonur hennar, þriggja ára, kom í heiminn enda ekki hlaupið að því að koma börnunum í skóla og leikskóla og ná sjálf í vinnu á réttum tíma með almenningssamgöngum.
„Mig langaði til að losna undan skutlinu, það var streituvaldandi og vesen og mig langaði til að einfalda lífið og skapa skilyrði fyrir sjálfbærari ferðalög til og frá skóla og vinnu fyrir mína fjölskyldu. Við ákváðum þannig í raun að flytja í Grafarvoginn til að lifa sjálfbærara lífi. Við völdum okkur heimili eins nálægt skóla stjúpsonar míns og við gátum svo hann gæti hjólað eða gengið til skóla á öruggan hátt. Við vorum ekki að velja bílastæði heldur staðsetninguna.“
Húsið sem þau keyptu var hannað á níunda áratug síðustu aldar og er í takti við bílamiðaða þróun þess tíma. Staðsetningin sé góð með tilliti til skólagöngu stjúpsonarins og í göngufæri við lágvöruverslun, bókasafn, sundlaug, bakarí og flesta þjónustu sem fjölskyldan þarf á að halda. Eins er svæðið vel tengt við almenningssamgöngur.
„Ég óska sem allra flestum að búa við þær aðstæður og það er minn metnaður að hanna borgina á þann hátt að fólk hafi alvöru valfrelsi um ferðamáta og sem flest losni undan skutlinu og þeirri streitu og streði sem það felur í sér. Klukkustund tvisvar á dag með þreytt og buguð börn í bíl hefur verið skipt út fyrir afslappaðar strætóferðir og útsýnistúra um borgina, hljóðbækur, góða tónlist og að láta hugann reika. Maðurinn minn hjólar gjarnan þannig að hann er búinn að græða á þessu meiri hreyfingu. Fyrir okkur er þetta betra og hamingjuríkara líf og dregur úr streitunni. Við eigum enn bíl og notum hann stundum en erum ekki hlekkjuð við hann eins og áður sem er svo gott. Í raun gætum við losað okkur við hann og höfum alveg velt því fyrir okkur.“
Keldnalandið sé enn í mótun og mögulega verður hægt að fjölga bílastæðum eitthvað ef þörf er á því. Hönnunin muni þó miða að því að þar geti fjölskyldur haft val um að nota ekki bíl til daglegra athafna.
„Oft er talað um að borgarfulltrúar séu bara lattelepjandi miðbæjarrottur alveg úr tengingu við úthverfin en ég get með þessu staðfest að ég er stolt úthverfatútta í Grafarvogi og er svo heppin að búa í því dásamlega og fjölskylduvæna hverfi. En ég sé líka tækifæri til að gera það enn betra, blása lífi í nærþjónustukjarnann í næsta nágrenni við mig, skapa enn lífvænlegri aðstæður fyrir hverfispöbbinn og gera umhverfið við alla þá frábæru þjónustu sem boðið er upp á í Spönginni öruggara, grænna og betra fyrir litla stubba sem okkur fylgja gjarnan og til að styðja betur við lifandi og iðandi mannlíf. Lifi Grafarvogur og megi hann blómstra sem aldrei fyrr!“
Af myndum af raðhúsi Dóru Bjartar má ráða að auðvelt væri að leggja þar fjórum bifreiðum. Eins hefur Dóra Björt sótt um að fá að breyta bílskúrnum í íbúð. Þeirri beiðni var hafnað en henni heimilt að breyta bílskúrnum þannig að hann verði hluti af íbúðarhúsnæðinu.