Mannýgur íkorni hefur sent tvær manneskjur á spítala og ráðist á þrjár aðrar nálægt San Francisco. Hengdar hafa verið upp auglýsingar til að vara við þessu óféti.
Fréttastofan AP greinir frá þessu.
Íbúar norðan við borgina San Francisco í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum eru uggandi eftir tíðar árásir íkorna að undanförnu. Tvær manneskjur hafa þurft að leita á spítala eftir árásirnar.
Kona að nafni Joan Heblock greindi frá því að hafa verið á vappi í hverfinu Lucas Valley þegar íkorninn stökk allt í einu á hana, greip um fótlegginn á henni, beit og klóraði.
„Hann festi sig við fótlegginn á mér. Skottið á honum stóð beint upp í loft. Ég öskraði: Farðu af mér! Farðu af mér!,“ sagði Heblock.
Ráðist var á aðra konu, Isabel Campoy, skammt frá. Íkorninn kom neðan úr grasinu stökk upp handlegginn á henni og óð beint í andlitið. Var hún blóðug og aum eftir árásina og þurfti aðhlynningu.
Báðar konur þurftu að leita á bráðamóttöku eftir árás íkornans. Fyrir utan sárin þá ber að hafa í huga að íkornar geta borið með sér sjúkdóma, svo sem bakteríuna yersinia pestis sem yfirleitt er kölluð svarti dauði og felldi hálfa Evrópu á miðöldum. Í dag er hún þó auðlæknanleg með sýklalyfjum.
Þá hafa borist tilkynningar um þrjár árásir íkorna til viðbótar á þessu sama svæði norðan við San Francisco. En ekki er vitað til þess að fórnarlömb þeirra hafi þurft að leita á spítala eins og áðurnefndar konur.
Hafa nú auglýsingableðlar verið hengdir upp víða á svæðnu til þess að vara við árásum íkornans. En gert er ráð fyrir um sama dýr sé að ræða því þetta er ekki eðlileg hegðun íkorna.
Á auglýsingunni stendur: „Þetta er ekki brandari, meira en fimm manns hafa orðið fyrir árásum mjög illgjarns íkorna undanfarna daga á svæðinu við Diablo Circle og Mount Lassen. Nokkrir hafa leitað á bráðamóttöku meða alvarleg sár.“
Að sögn Lisu Bloch, starfsmanns dýrahjálparsamtakanna Marin Humane, þá hafa ekki borist tilkynningar um árásir íkorna allra síðustu daga. En ef þær berast þá muni samtökin fara af stað og reyna að handsama hinn mannýga íkorna í samstarfi við opinbera starfsmenn.
„Við höfum séð svona gerast áður,“ segir Bloch. „Þetta er yfirleitt af því að einhver hefur verið að fóðra dýrið.“ Það ætti aldrei að gefa villtum dýrum mat að éta.