Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar auglýsti málstofu um nýtt örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfi í Tryggvaskóla á Selfossi í gærmorgun.
Frummælendur á málstofunni voru Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Fundarstjóri var Soffía Sigurðardóttir.
Þegar fundarhaldarar komu að Tryggvaskála á tíunda tímanum í gærmorgun voru dyr veitingastaðarins læstar og enginn starfsmaður á staðnum. Starfsmaður mætti rétt um tíu en þá voru fundahaldarar og einhverjir fundargestir horfnir á braut og höfðu flutt málstofuna annað í flýti.
Rekstrarstjóri Tryggvaskála, Tómas Þóroddsson, er afar ósáttur við skrif og yfirlýsingar sem hann segir að Samfylkingarfólk hafi látið falla um fyrirtæki sitt í kjölfar þessarar óheppilegu uppákomu. Skrifar hann á Facebook-síðu sína:
Merkilegt með minn gamla flokk, fyrirgefur ekkert.
Einn minn besti stafsmaður svaf yfir sig í morgun eftir erilsama kvöldvakt. Tryggvaskáli opnaði mínútu fyrir auglýstan fundartíma, en Samylkingin sem átti bókaðsn sal hafði þá stormað burt. Ég hafði i millitíðinni verið í sambandi við Soffíu fundarstjóra og sagt að annar starfsmaður væri komin ekki seinna en kl 10.00 sem og hann var. Í framhaldandi baðst eg innilegar afsökunar á að starfsmaður svaf yfir sig.
Af litlum neista verður oft lítið bál segir í kvæðinu. Af engu tilefni ákveður samfylkingin í Árborg að ráðast opinberlega á mitt fyrirtæki af þessum sökum, eins og harmleikur hafi átt sér stað. Ég sef sennilega yfir þessu en starfsmaðurinn er í molum yfir þeim glæp sem hann hefur framið…að sofa yfir sig.
Svona er lífið margslungið og flokkur hinna vinnandi stétta fyrirgefur sínu fólki ekkert þegar á hólminn er komið. Blæs upp smáatriði sjálfum sér til framdráttar. Vona að engin verslunarmaður, kennari eða pólitikus sem kennir sig við samfylkinguna í þessu landi fremji þann glæp að sofa yfir sig.
Þegar ég starfaði nótt sem nýtan dag fyrir samfylkinguna á árum áður þá voru gildin barátta fyrir vinnandi fólk.
Samfylkingin í dag er langt frá þeim gildum, en eg mun til dauða dags halda í þau
Svona framkoma hefði ekki gerst á vaktinni hjá mínum bestu felögum.
Fundarstjórinn Soffía Sigurðardóttir svarar þessum skrifum Tómasar í mestu vinsemd. Segist hún gera sér fulla grein fyrir því að hér hafi átt sér stað heiðarleg mistök og hún beri alls ekki illan hug til Tryggvaskála vegna þeirra. Hún segir að hafi einhver úthúðað fyrirtækinu vegna þessa þyki henni það afar leitt og ljóst er að slíkt kemur ekki frá henni:
„Tommi, kæri vinur.
Ég og við öll sem lentum í þessu véseni gerum okkur öll grein fyrir því að hér áttu sér stað mistök sem leiddu til þess að Tryggvaskáli opnaði ekki í tíma. Fundarboðendur, verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar, og frummælendur mættu auðvitað aðeins fyrir boðaðan fund og komu að læstu húsi. Svo dreif að fólk. Eftir árangurslausar tilraunir til að ná í þig eða einhvern til að opna, þá var stokkið til að færa fundarstaðinn. Fólk var að streyma inn á þann stað þegar fyrstu viðbrögð komu frá þér og þínum. Þá var full seint að snúa fólki við og þar við sat. Það komu um 70 manns á þennan fund og mættu tímanlega.
Ég er viss um að engum þykir þetta leiðara en þér og þínu góða fólki á Tryggvaskála. Mér og okkur sem þurftum að bregðast við á síðustu stundu þykir þetta leitt, ekki bara okkar vegna heldur ykkar vegna líka.
Hér áttu sér stað leið mistök, sem eru afstaðin og ekkert annað um að ræða en að standa upp aftur. Svona getur gerst.
Hafi einhver úthúðað þér og þínu fólki vegna þessa, þá þykir mér það mjög leitt. Fyrir mér urðu þarna mistök og sé enga ástæðu til að erfa þetta óhapp og berum við fullt traust til þín og Tryggvaskála.
Með von um sátt og samvinnu framvegis og takk fyrir skjót og góð viðbrögð þegar leitað var eftir að fá salinn fyrir þennan fund.
Góðar óskir.“
Ekki tókst að ná sambandi við Tómas við vinnslu fréttarinnar.