

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að áform ríkisstjórnarinnar um að leggja niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða geti valdið því að verkamenn fái allt að 15% lakari lífeyrissréttindi.
Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísi.
Ríkisframlaginu til sjóða sem bera mikla örorkubyrði hefur verið ætlað að tryggja að allir lífeyrissjóðir stæðu jafnir og sjóðfélagar nytu sambærilegra réttinda óháð því í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða. Staðan sé hins vegar sú að þeir lífeyrissjóðir sem verkamenn greiða í bera langmesta örorkubyrði og hjá þeim fari allt að þriðjungur af heildargreiðslum í örorkubætur. Hlutfallið hjá stærri sjóðum sé aðeins brot af þessu.
En hvað þýðir 15% lakari lífeyrisréttindi fyrir sjóðfélaga? Vilhjálmur segir í grein sinni:
„Þegar talað er um að verkafólk sitji uppi með allt að 15% lakari lífeyrisréttindi en aðrir þrátt fyrir sömu innborgun þýðir það að verkafólk getur tapað vel á annan tug milljóna króna yfir meðalævi miðað við launamann sem leggur inn sama iðgjald í sjóð með minni örorkubyrði.
Sama innborgunin – sama vinnuframlagið – er að skila miklu lakari lífeyri, einfaldlega vegna þess að viðkomandi er í sjóði sem ber meiri örorkubyrði. Þetta er andstæða hugmyndarinnar um samtryggingu og jafnræði sem átti að liggja að baki lífeyriskerfinu.“
Vilhjálmur segir að samkomulag milli ríkissins og verkalýðshreyfingarinnar sem gert var fyrir 20 árum hafa kveðið skýrt á um að ríkið ætti að koma að því að jafna örorkubyrði milli sjóða. „Ástæðan var einföld – eftir að örorkan var flutt frá ríkinu yfir til lífeyrissjóðanna með lögum 1998 blasti við að verkamannasjóðirnir myndu bera langmestu byrðina. Þar starfar fólk við erfiðustu störfin, með hærra hlutfall örorku og minni starfsaldur.“
Segir Vilhjálmur að ef ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við þetta gamla samkomulag um að jafna örorkubyrði á milli lífeyrissjóða þá sé ekki annað í stöðunni en að ríkið taki öorkubyrðina að öllu leyti yfir til sín aftur frá sjóðunum. „Það er ekki hægt að horfa upp á að verkafólk – sem vinnur erfiðisvinnu sem leiðir oftar en ekki til aukinnar örorku – sé látið sitja eftir með lakari réttindi en aðrir,“ segir hann.
Grein Vihjálms er töluvert ítarlegri en það sem hér hefur verið nefnt og hana má lesa hér.