Óttarr Proppé sem var heilbrigðisráðherra frá janúar 2017 og fram í nóvember sama ár lýsir með þó nokkurri hæðni árangurslitlum tilraunum sínum til að panta tíma hjá heimilislækni. Veltir hann því fyrir sér hvort ekki væri skilvirkari leið að leita fremur til kirkjugarðanna. Segir hann ljóst að það skorti algerlega þjónustuhugsun í kerfinu.
Óttarr fjallar um þetta í nýjum pistli á Facebook. Hann segist þar flokkast sem „elíta“ þar sem honum hafi einhvern tímann verið úthlutað tilteknum heimilislækni. Fyrr í dag hafi hann hins vegar fundið til krankleika og dottið í hug að leita til læknis. Það gekk hins vegar frekar brösulega. Óttar segir svo frá:
„Ég fór inn á Heilsuvera.is eins og hvatt er til, og fann þar flipa fyrir Tímabókun og var boðið upp á leghálsskimun, bæði í Reykjavík og á Mývatni, getnaðarvarnarráðgjöf og viðtöl við nokkra lækna en bara ekki minn. Svo ég hringdi í heilsugæsluna og fékk samband. Þar var mér sagt að tímapantanir væru bara gerðar á heilsuveru, en ekki undir „Bóka tíma“ heldur undir „skilaboð“ og þar ætti ég að velja „eftirfylgd meðferðar“ hvort sem um einhverja eftirfylgd væri að ræða eða ekki. Það er prýðisaðferð til að létta á álagi að koma í veg fyrir að sjúklingar séu að trufla kerfið. Ég loggaði mig strax út áður en skaði hlytist af.“
Óttarr segir að þá hafi honum dottið í hug að sjá hvort það væri ekki bara skilvirkast að láta grafa sig strax. Hann hafi farið inn á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkur. Það hafi tekið hann tvo smelli að finna eyðublað fyrir beiðni um líkbrennslu. Þar sé hægt að setja inn nafn, lögheimili og kennitölu og undir standi „Kyrrð og kærleikur“. Ljóst sé að þjónustan sé mun notendavænni hjá kirkjugörðunum en í heilbrigðiskerfinu:
„Þetta finnst mér almennilegt, aðgengilegt og meira að segja vinalegt. Enda er mikilvægt að fólki sé boðið auðvelt aðgengi að mikilvægri þjónustu. Ég er byrjaður að fylla eyðublaðið út en er svo latur til slíks að ég er að farinn að spá í hvort ég eigi að harka bara af mér. Mér var reyndar einu sinni sagt að manni sé stundum hleypt inn á bráðamóttöku svo fremi maður sé hálfdauður, og að því tilskyldu að maður hafi beðið nógu lengi. Á það kannski inni ef mér skildi versna.“
Í athugasemdum við færsluna lýsa þó nokkrir yfir áhyggjum af heilsu Óttarrs. Hann áréttar í athugasemd að hann sé ekki bráðveikur. Ef svo væri myndi hann getað bjargað sér um hvert eigi að leita innan heilbrigðiskerfisins en ljóst sé að bæta þurfi þjónustuna:
„En ég pæli í því ef ég væri ekki svona sæmilegur, nokkuð læs, íslenskumælandi, nettengdur, edrú og eigandi svona fína vini með alls konar trix og leynileiðir að þjónustu… þá væri ég í djúpum saur. Ég er meira en lítið gapandi á þessum algera skorti á þjónustuhugsun sem er landlæg hjá okkur. HR býður uppá nám í þjónustuhönnun. Það. mætti að ósekju vera mikið vinsælla.“